HB Grandi ætlar að draga verulega úr eða jafnvel hætta að kaupa botnfisk á fiskmarkaði. Ástæðan er sú að rekstrarhorfur fyrir botnfiskvinnslu hafa ekki verið lakari í áratugi að því er fram kom í tilkynningu frá fyrirtækinu í morgun.

„Það liggur fyrir að við höfum ákveðið að draga úr eða jafnvel hætta alveg kaupum af öðrum útgerðum á fiskmörkuðum. Við keyptum í fyrra 4.000 tonn með þeim hætti af þeum 28.000 tonnum sem við unnum í landi þá,“ segir Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda í samtali við RÚV .  Hann segir að nauðsynlegt hafi verið að taka þessa ákvörðun.

„Hún er einfaldlega til að draga úr því tapi sem er fyrirsjáanlegt á vinnslu botnfisks í landi. Sá taprekstur helgast fyrst og fremst af sterku gengi íslensku krónunnar og kostnaðarhækkunum innanlands. En fiskverð hefur hins vegar lítið breyst síðustu tvö árin hjá okkur.“

Botnfiskvinnslan fer bæði fram í Reykjavík og á Akranesi. Á Akranesi vinna um 160 manns hjá fyrirtækinu. Vilhjálmur var spurður hvaða áhrif þetta  myndi hafa á starfsemi fyrirtækisins uppi á Skaga?

„Þetta eitt og sér hefur ekki áhrif á starfsemi okkar á Akranesi. Við höfum fyrst og fremst verið að vinna þorsk á Akranesi. Við keyptum um 500 tonn af þorski á markaði í fyrra. Þetta er fyrst og fremst ufsi sem við höfum verið að kaupa og hann hefur farið til vinnslu í Reykjavík.“

Munið þið þá ekkert draga úr ykkar starfsemi á Akranesi?

„Það er bara önnur ákvörðun og það hefur engin ákvörðun verið tekin um það,“ sagði Vilhjálmur við fréttamann RÚV.

Forsvarsmenn HB Granda eiga fund með Vilhjálmi Birgissyni, formanni Verkalýðsfélags Akraness, uppi á Skaga  í dag til að fara yfir þá stöðu sem blasir við í landvinnslunni.