Forráðamenn Hvals hf. eru endanlega búnir að slá af hvalveiðar í ár, en heimilt var að veiða um 150 langreyðar á vertíðinni. Gunnlaugur Fjólar Gunnlaugsson verkstjóri í Hvalstöðinni í Hvalfirði segir í samtali við Skessuhorn að uppbyggingin í Japan eftir jarðskjálftana gangi hægt, en vonir standi til að ástandið þar verði orðið allt annað og betra næsta vor.
“Við lifum í voninni, erum þolinmóðir og bjartsýnir eins og við höfum verið, annars hefðum við ekki beðið í 20 ár eftir því að mega veiða hvalinn aftur. Nú förum við bara að undirbúa næstu vertíð, erum fjarri lagi búnir að gefa hvalveiðar upp á bátinn,” segir Gunnlaugur Fjólar Gunnlaugsson í samtali við Skessuhorn .
Á vef Skessuhorns segir að um og yfir 150 manns hafi unnið við hvalveiðar- og vinnslu síðustu sumur, vinnan verið mikil og uppgrip í tekjum fyrir þá sem að henni komu.