Stærstu sjávarútvegsfyrirtækin í Grindavík hafa af fremsta megni reynt að halda uppi vinnslu og veiðum meðan fordæmalausar náttúruhamfarir hafa verið nánast daglegt brauð í næsta umhverfi. Einhamar Seafood hefur unnið ferskfisk sleitulaust frá því 22. febrúar og Vísir hefur verið með saltfiskvinnslu í Helguvík og minniháttar vinnslu í Grindavík. Stakkavík, sem fór hvað verst út úr jarðhræringunum í Grindavík á síðasta ári, ráðgerir að hefja vinnslu þar sem fyrirtækið var áður með fiskþurrkun í Mölvík.

Sem fyrr segir hefur Einhamar Seafood í Grindavík nánast sleitulaust haldið uppi vinnslu frá því seinnipartinn í febrúar en nú verður tekið frí meðan hrygningarstopp stendur yfir. Stefán Kristjánsson, eigandi Einhamar Seafood, segir að það henti líka ágætlega svo einhver verði kvótinn eftir fyrir sumarið.

Gengur vel á kvótann

Það hefur gengið vel á kvótann hjá bátum Einhamar Seafood eins og hjá flestum öðrum enda fiskast með eindæmum vel og fiskur út um allan sjó. Líklega verða eftir um 120 tonn á bát það sem eftir lifir kvótaársins en Einhamar Seafood gerir út línubátana Gísla Súrsson GK, Auði Vésteinsdóttur SU og Véstein GK. Stefán segir að svo verði keypt eitthvað af fiski til að halda uppi vinnslu.

„Þetta hefur í raun gengið alveg frábærlega þrátt fyrir ytri aðstæður. Við erum búin að vera í vinnslu í sex vikur samfleytt. Ég hef flaggað hérna á hverjum einasta morgni, íslenska þjóðfánanum og Einhamarsfánunum. Okkur fannst það risastór áfangi að geta náð að opna aftur fyrir fiskvinnslu og ná að opna Grindavík. Málið er ekki flóknara en að það var allt að kafna hérna,“ segir Stefán.

Allir komnir í gott skjól

Hjá Einhamar Seafood hefur starfað einvala lið aðfluttra Íslendinga frá Póllandi og Taílandi sem hefur starfað hjá fyrirtækinu í áratugi. Flestir fóru til síns heima þegar Grindavík var lokað eftir stóru atburðina þar en komu allir aftur til landsins í desember og hefur Einhamar útvegað þeim öllum húsnæði. Í millitíðinni var unnið í húsnæðismálum fyrirtækisins. Í janúar hófst vinnsla og stóð í sex daga þegar fór að gjósa á ný. Við tók stórt stopp að undirlagi Almannavarna sem stóð yfir í næstum fjórar vikur. 22. febrúar hófst vinnsla á ný og hefur tekist að halda vinnslu uppi síðan. Lengst af var Einhamar Seafood eitt um að halda uppi vinnslu á fiski á staðnum.

Vinnsluhúsnæði Stakkavíkur var dæmt ónýtt og hefur Nýfiskur í Sandgerði að mestu séð um vinnslu á afla á bátum Stakkavíkur. Vísir hélt uppi saltfiskvinnslu í Helguvík og hefur undanfarið líka verið með vinnslu og slægingu í vinnslunni í Grindavík sem og Þorbjörn.

Landað úr línuskipi Þorbjarnar hf. í Grindavík í fyrsta sinn í langan tíma í lok febrúar. FF MYND/EVA BJÖRK
Landað úr línuskipi Þorbjarnar hf. í Grindavík í fyrsta sinn í langan tíma í lok febrúar. FF MYND/EVA BJÖRK

Dropinn holar steininn

„Dropinn holar steininn og nú þarf að gera gangskör að því að fylla upp í sprungur í bænum og treysta innviðina. Það gerist ekkert fyrr en bærinn er opnaður og það er ekkert því til fyrirstöðu. Sprungusvæðin hafa verið girt af og reistir varnargarðar. Ég hef sjálfur gist í Grindavík nánast allar nætur frá opnun. En það er lítið við að vera hérna annað en vinnan. Félagslífið er Vélsmiðja Grindavíkur og svo er hádegismatur á Vörinni,“ segir Stefán.

Íslenski þjóðfáninn og fánar Einhamar Seafood blakta við hún við vinnsluna á hverjum degi sem unnið er.
Íslenski þjóðfáninn og fánar Einhamar Seafood blakta við hún við vinnsluna á hverjum degi sem unnið er.

Höldum ótrauð áfram

Frá því að vinnsla hófst á ný hjá Einhamar Seafood í endaðan febrúar hafa verið unnin 20-30 tonn af dag af hágæða ferskfiski sem fer með flugi til Bandaríkjanna og Evrópu. Þetta er línufiskur sem er farinn í flug á hádegi daginn eftir löndun – hágæða ferskur fiskur með langt hillulíf. Erlendir kaupendur hafa sýnt aðstæðunum í Grindavík skilning og áratugalöng viðskiptasambönd hafa ekki skaðast.

„Við höldum ótrauð áfram hérna í Grindavík. Það er engan bilbug á okkur að finna,“ segir Stefán