Hiti hefur færst í þjóðmálaumræðuna á Grænlandi í aðdraganda nýrra þingkosninga þar í landi og hafa KNAPK, samtök fiskimanna og veiðimanna, nú blandað sér í slaginn með ásökunum á hendur stjórnvöldum út af kvótaúthlutunum á makríl.
Af því tilefni hefur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið í Grænlandi brugðist hart við og mótmælt hástöfum þeim fullyrðingum KNAPK að starfsmenn ráðuneytisins af erlendu bergi brotnir hafi misnotað aðstöðu sína og úthlutað landsmönnum sínum makrílkvótum og að ráðuneytið hafi veitt erlendum útgerðum forgang fram yfir grænlenskar útgerðir við makrílúthlutanir.
Vitnað er í yfirlýsingar KNAPK þar sem segir m.a. að ráðuneyti mikilvægustu atvinnugreinar Grænlands sé stýrt af útlenskum embættismönnum sem vilji kúga Grænlendinga. „Við Grænlendingar megum ekki einu sinni ræða við þá á móðurmáli okkar – og svo gera þeir jafnvel grín að okkur. Útlenskir embættismenn sem starfa í ráðuneytinu eru byrjaðir að úthluta kvótum til landsmanna sinna sem ekki hafa nein tengsl við Grænland. Allt þetta má finna í skjölum,“ segir KNAPK.
Grænlenska sjávarútvegsráðuneytið tekur fram af þessu tilefni að starfsmenn ráðuneytisins úthluti ekki kvótum í makríl frekar en í öðrum tegundum. Það sé algjörlega á hendi grænlensku landsstjórnarinnar. Ráðuneytið kveðst íhuga að kæra þessi ummæli til lögreglunnar.
Frá þessu er skýrt á vef grænlensku landsstjórnarinnar.