„Þetta verður mjög stuttur túr hjá okkur. Við eigum að vera í höfn í Reykjavík nk. mánudag en við létum úr höfn 5. maí. Nú erum við búnir að vera í 13 daga og aflinn er kominn í um 400 tonn. Þetta er mjög blandaður afli,” segir Arnar Haukur Ævarsson, skipstjóri á frystitogaranum Örfirisey RE.

Örfirisey hóf veiðiferðina á SV miðum en frá henni er sagt á heimasíðu Brims.

„Við vorum m.a. að leita að gulllaxi. Við fundum hann í Skerjadjúpinu og það gekk vel að veiða hann. Auk gulllaxins fengum við dálítið af djúpkarfa,” segir Arnar en að sögn hans var næst ákveðið að taka stefnuna norður á Vestfjarðamið.

„Það lá næst við að reyna við grálúðuna. Við fórum á Hampiðjutorgið og svæðið þar fyrir utan. Það var lítið um grálúðu og djúpkarfi sást ekki á svæðinu. Það auðveldaði ekki veiðarnar að það var bræluskítur á miðunum lengst af.”

Arnar Haukur neitar því ekki að freistandi hefði verið að stunda veiðar í Víkurálnum en:

„Það er svo mikið af þorski í Víkurálnum og Nætursölunni að það er ekki hægt að leita að ufsa sem við fegnir vildum veiða. Þorskur er að þvælast fyrir okkur mjög víða en við verðum að bíta í það súra epli að okkur er skammtað það magn sem má veiða hverju sinni. Þorskur er þar ekki ofarlega á blaði,” segir Arnar Haukur en hann segir stefnuna hafa verið setta á SV-mið að nýju.

„Við reynum aftur við gulllaxinn og svo djúpkarfann í Skerjadjúpi. Það eru mjög fáir að veiða gulllax. Veiðin var góð þegar við hættum og verður það vonandi þegar við komum aftur á svæðið.”

Að sögn Arnars Hauks var Örfirisey í norsku lögsögunni í Barentshafi í síðasta túr og reyndar hér heima undir lokin.

„Þetta var fínn túr hjá Ævari og kvótinn er nú kominn í hús. Ég veit ekki hvort farið verður í rússnesku lögsöguna en vegna ástandsins þykir mér það ólíklegt,” segir Arnar.