Mikill eldur er í nýbyggingu seiðaeldisstöðvar Arctic Fish í Norðurbotni í botni Tálknafjarðar. Lögreglan á Vestfjörðum skýrði frá þessu í morgun.

Tilkynning barst lögreglunni kl. 9:18 og var svæðið rýmt af lögreglu, slökkviliði og björgunarsveitum. Þjóðvegurinn í botni fjarðarins hefur sömuleiðis verið lokaður í öryggisskyni.

Fréttablaðið greinir frá því að tveir hafi verið fluttir á slysadeild og hefur eftir Ólafi Þór Ólafssyni sveitarstjóra að allt tiltækt lið hafi verið virkjað og slökkvilið vinni að því að slökkva eldinn.

Nýja húsið var langt komið í byggingu og átti að taka það í notkun á næstu mánuðum. Undanfarið hefur verið unnið að því að setja þak á seiðastöðina en húsið er byggt á milli tveggja eldri seiðastöðva.

„Með þeirri byggingu erum við að tvöfalda kerjarýmið í stöðinni og eftir það ættum við okkur geta framleitt um þúsund tonn  eða um 5-6 milljónir af 200 gramma seiðum á ári,“ sagði Daníel Jakobsson framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Arctic Fish þegar Fiskifréttir ræddu við hann fyrir skömmu.