„Íslensk stjórnvöld hafa sett sér ákveðin markmið í orkuskiptum. Í sjávarútvegi er markmiðið það, að vistvænt eldsneyti verði 10% árið 2020. Á árinu 2013 notuðu íslensk fiskiskip um 151 þúsund tonn af olíu. Af því voru 0,06% vistvænt eldsneyti. Hér þarf að gera betur, miklu miklu betur. Enda er um brýnt umhverfis- og ímyndarmál atvinnugreinarinnar að ræða.“
Þetta sagði Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra í erindi sínu á stofnfundi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Hann minnti á að nýlega hefði innanríkisráðherra úthlutað styrkjum til orkuskipta í skipum þar sem lögð væri áhersla á notkun innlendra orkugjafa, vistvænt eldsneyti og minni notkun á jarðefnaeldsneyti. Þetta væri viðbót við framtak einstakra útgerðafyrirtækja. Tækist vel til mætti ætla að framboð og notkun á vistvænu eldsneyti ykist mjög á komandi árum.
Ráðherrann minnti á að þau skip sem nýlega hefði verið samið um smíði á fyrir Íslendinga erlendis yrðu meira orkusparandi en þau sem fyrir væru.