Norska fyrirtækið Smir sem selur búnað til fiskeldis hefur efnt til samstarfs við ítalska fyrirtækið Badinotti um framleiðslu og sölu á eldiskerfum sem koma á alfarið fyrir neðansjávar. Viðræður fyrirtækjanna hófust fyrr á þessu ári.

Í tilkynningu frá Smir segir að ákveðið hafi verið að færa samstarfið yfir á næsta stig eftir strangar viðræður og umfangsmikla skoðun á sökkvanlegum eldiskvíum og netaframleiðslu sem ítalska fyrirtækið reki í Slóvakíu.

Undir lúsabeltið

Badinotti er sagt vera þekkt fyrir framleiðslu sína á lokuðum kvíum til notkunar við erfiðar aðstæður, meðal annars þar sem ölduhæð sé allt að fimmtán metrar. Þessi sérstaka kunnátta hafi leitt til þess að Smir hóf samstarf við Badinotti sem snúist um að nýta tækni ítalska fyrirtækisins samhliða þeirri tækni sem Smir búi yfir í sjálfvirkum fóðrunarkerfum og kölluð sé Smirfeeder. Með samnýtingu þessara tveggja þátta sé hægt að ná sem bestum árangri í djúpsjávareldi.

Smir segist þegar vera farið að undirbúa að kynna þessa lausn fyrir eldisfyrirtækjum í Noregi. Það sé gert til að svara eftirspurn eftir aðferðum sem staðsetji fiskinn fyrir neðan „lúsabeltið“ eins og sagt er í tilkynningunni.

Tilraunaverkefni í Noregi

„Fyrirtækið á í viðræðum við norskan aðila og er nærri því að setja á laggirnar tilraunaverkefni,“ segir Smir.

Að sögn Smir gefur þetta bandalag fyrirtækisins við Badinotti tækifæri til að bjóða bæði fyrirbyggjandi aðferð og einnig meðferð til að verjast sjávarlús. Meðal annars er fjallað um þessi tíðindi í netmiðlinum fishfarmingexpert.com. Þar segir að lúsabeltið sem um ræði sé frá yfirborði sjávar og niður á tíu metra dýpi.

Enn fremur segir fishfarmingexpert.com að þetta samstarf marki umtalsvert skref fyrir Badinotti við að takast á við nýjar áskoranir í eldisiðnaðinum. Badinotti segir að með tækniþróun og taktískum betrumbótum vilji fyrirtækið ná forystu í framleiðslu eldiskvía.

Ekki  bara vandræði á Íslandi

Þessi nýja aðferðafræði ætti að geta vakið áhuga hér á landi. Þess er skemmst að minnast að nýlega þurfti að farga gríðarlegu magni af eldislaxi úr sjókvíum Arnarlax í Tálknafirði og lús hefur almennt lagst þungt á lax í eldiskvíum á Vestfjörðum í haust. En lús er ekki eina vandamálið sem eldisfyrirtæki glíma við og vandamálin eru ekki bundin við Ísland og ekki öll við sjókvíaeldi.

Nýlega sagði CBS fréttastofan í Kanada frá því að tjón upp á jafnvirði tæplega 700 milljóna króna hefði orðið í landeldisstöð fyrirtækisins Sustainable Blue í Nova Scotia þar sem eitt hundrað þúsund laxar,  4 til 8 kíló að þyngd, hefðu drepist vegna bilunar í tækjabúnaði. Laxinn sem drapst var kominn í sölustærð.

Vegna þessa mun fyrirtækið ekki geta afhent viðskiptavinum sínum lax fyrr en í júní 2024. Sustainable Blue mun vera eina eldisstöðin í Norður-Ameríku sem lætur engan úrgang frá sér. Bilun kom upp í búnaði sem hreinsar burt koltvísýring sem laxinn lætur frá sér.

Og í síðustu viku var sagt frá því á vefmiðlinum salmonbusiness.com að hátt í þúsund tonn af eldislaxi hefðu drepist í Seno de Reloncaví í Síle vegna þörungafaraldurs. Á umræddum svæði munu vera 28 laxeldisstöðvar með samtals tæplega 50 þúsund tonn af lífmassa