Sjávarútvegssýningarnar European Seafood Exposition (ESE) og Seafood Processing Europe (SPE) hefjast í Brüssel í Belgíu í fyrramálið og munu þær standa yfir næstu þrjá dagana. Fjöldi íslenskra fyrirtækja tekur að venju þátt í sýningunum en meðal þeirra er HB Grandi sem tekið hefur þátt í ESE-sýningunni frá árinu 2005.
,,Sýningin í Brüssel hefur verið ákaflega vel heppnuð mörg undanfarin ár en núna er nokkur óvissa um það hvernig þátttakan verður. Eldgosið í Eyjafjallajökli hefur lamað flugsamgöngur í Vestur-Evrópu og þótt það sé nú búið að opna flugvelli að nýju þá höfum við heyrt að eitthvað sé um afboðanir. Það verður bara að koma í ljós hvernig þátttakan verður þegar sýningin hefst,“ segir Svavar Svavarsson, markaðsstjóri HB Granda á heimasíðu fyrirtækisins en hann hélt ásamt 10 öðrum starfsmönnum félagsins með flugi frá Keflavík til Brüssel í gær. Alls verða 14 starfsmenn HB Granda á sjávarútvegssýningunni að þessu sinni.
Á heimasíðu sjávarútvegssýninganna í Brüssel kemur fram að búist er við að meira en 1.600 sýnendur frá um 140 þjóðlöndum taki þátt í ESE-sýningunni. Mun færri taka þátt í SPE-sýningunni, sem er vettvangur tækjaframleiðenda, en þar var gert ráð fyrir að fulltrúar rúmlega 200 fyrirtækja frá 22 þjóðlöndum myndu standa vaktina næstu dagana.