Rannsóknarskipið Árni Friðriksson kom á föstudag úr átján daga alþjóðlegum leiðangri sem farinn var til að meta magn og útbreiðslu makríls,  kolmunna og norsk-íslenskrar síldar í norðaustur Atlantshafi.

Anna Heiða Ólafsdóttir, fiskifræðingur hjá  Hafrannsóknarstofnun, sem leiddi íslenska hluta leiðangursins segir hann hafa gengið ljómandi vel.

„Við fórum eins og venjulega réttsælis í kring um landið og mældum alla landhelgina nema rétt suðaustur hlutann, Færeyingar gerðu það,“ segir hún.

Makrílinn dreifðari en í fyrra

Að sögn Önnu Heiðu virðist hafa verið álíka magn af makríl sem veitt var á rannsóknarskipinu miðað við í fyrra.  „En hann var dreifður yfir minna svæði, sérstaklega fyrir sunnan. Þetta  var eiginlega bara í kantinum á landgrunninu. Ef eitthvað var þá var minna fyrir vestan landið heldur en í fyrra,“ segir hún.

Auk Íslendinga og Færeyinga taka Danir og Norðmenn þátt í verkefninu. Norsku rannsóknarskipin tvö eru enn að og koma ekki í land fyrr en 5. ágúst að sögn Önnu Heiðu. Leiðangrinum í heild er því ekki lokið og ekki komin heildarmynd af stöðunni. Sameiginleg lokaniðurstaða um ástandið verði gefin út í lok ágúst.

„Við hittumst vikuna 14. til 18. ágúst og vinnum úr öllum gögnunum saman,“ segir Anna Heiða sem kveður samstarfið ganga mjög vel. „Það eru um tólf vísindamenn frá fjórum þjóðum sem eru á þessum fundi og við gerum þetta saman og skrifum eina skýrslu.“

Út úr þessu kemur ein vísitala fyrir makrílstofninn í Norðaustur-Atlantshafi sem fer inn í stofnmatið.

„Það er síðan Alþjóða hafrannsóknarráðið sem gefur út ráðgjöf, eina tölu, og svo skipta löndin því á milli sín,“ segir Anna Heiða. Ráðgjöf Hafró verði þannig í raun ráðgjöf Alþjóða hafrannóknarráðsins.

Stór makríll en nýliðun vantar

Frá  íslensku útgerðunum heyrist að makríllinn sé fremur stór núna. „Hann var mjög stór, það er alveg hárrétt“ segir Anna Heiða. „Stór fiskur er gamall fiskur, það er lítið um nýliðun,“ svarar hún spurð um ástæðu þess að svo mikið er af stórum makríl.

„Það fæst náttúrlega verðmætari fiskur en við viljum hafa þetta blandaðra þannig að það séu nýir árgangar að koma inn,“ segir Anna Heiða. Þegar vísitalan verði gefin út verði hún greind eftir aldri og þá sjáist þetta betur.

Anna Heiða segir þetta ekki koma á óvart. „Makríllinn hefur verið að stækka undanfarin ár. Það er minna af litlum makríl, sérstaklega við Ísland,“ segir hún. Annað hvort sé lítið af þeim fiski eða hann fari eitthvað annað. Fiskar almennt skiljist oft að eftir stærð.

Sést ekki fyrir vestan

Bráðabirgðaniðurstöður sýna ekki að sögn Önnu Heiðu að makrílinn sé að ná aftur þeim hæðum sem hann var í hér við land á árunum frá og með 2013 til 2019.

„Þetta er ekkert nálægt því. Það er miklu minna magn og miklu minna svæði sem þetta var dreift yfir núna,“ segir Anna Heiða. Á árunum 2013 til 2019 hafi makríllinn náð miklu vestar.

„Þá var fullt af makríl fyrir vestan Ísland. Það erum við ekki að sjá núna. Við erum að sjá hann með suðurströndinni en erum ekki að sjá þetta magn fyrir vestan,“ segir Anna Heiða Ólafsdóttir.