Strandveiðar eru nú komnar á fullt skrið.  Landanir yfir þúsund og 377 bátar búnir að virkja leyfin.

Eftirfarandi má lesa á vef Landssambands smábátaeigenda :

Að sögn Andra Viðars Víglundssonar, á Margréti ÓF Ólafsfirði, er þorskurinn kominn á slóðina, mun betri veiði nú á fyrstu dögum strandveiða en undanfarin ár.  Flestir í mokveiði.  Sá sem varð fyrstur í land sl. fimmtudag sá fuglager útaf Múlanum, drap á og lét reka inn í gerið.  Hann náði aldrei að renna nema þremur rúllum af fjórum áur en skammtinum var náð.

Aðrir sem voru á veiðum 4. maí létu vel af sér og ekki óalgengt að menn væru komnir í land uppúr hádegi í slíkri blíðu að ekki sást gára frá múkka.  Myndin sem hér fylgir sýnir þetta glöggt, en hana tók Víðir Örn Jónsson á Víði ÞH Grenivík þennan sama dag.

Eins og undanfarin ár verður hægt að sjá stöðu veiðanna á vef LS að loknum hverjum veiðidegi.   Að loknum 4. degi veiðanna var mest búið af maískammtinum á svæði A eða 39%.