Ljóst er að það magn loðnu sem mældist í nýafstöðnum loðnuleiðangri Hafrannsóknastofnunar er undir því sem þarf til að mælt verði með upphafskvóta fyrir komandi loðnuvertíð. Samantekt á niðurstöðum er ekki lokið og áætluð stærð loðnustofnsins liggur því enn ekki fyrir. Endanlegar niðurstöður munu líklega liggja fyrir í lok þessarar viku eða snemma í þeirri næstu og mun Hafrannsóknastofnun þá kynna þær með hefðbundnum hætti.

Frá þessu greinir stofnunin á heimasíðu sinni.

Bergmálsmælingar á stærð loðnustofnsins fóru fram á rannsóknaskipunum Árna Friðrikssyni og Bjarna Sæmundsyni ásamt norska uppsjávarskipinu Eros, sem grænlenska Hafrannsóknastofnunin leigði til verkefnisins, dagana 5.- 28. september. Þetta var í fyrsta sinn sem Grænlendingar taka þátt í mælingunum að haustlagi en allt frá árinu 1984 hafa Íslendingar einir sinnt vöktun loðnustofnsins.

Rannsóknasvæðið náði yfir landgrunnið við Austur Grænland allt frá um 75°N og suðvestur með landgrunnskantinum allt suður að syðsta odda Grænlands, Hvarfi. Auk þess náði rannsóknasvæðið til Grænlandssunds, Íslandshafs, hafsvæðisins vestan við Jan Mayen auk Norðurmiða. Veður hafði allnokkur áhrif á yfirferð skipanna, en að mestu leyti náðist að mæla við góðar aðstæður og hafís hamlaði ekki mælingum. Þannig náðist því að miklu leyti að fara yfir það svæði sem fyrirhugað var að skoða.