Löggjafinn er bundinn ákvæðum stjórnarskrárinnar, þar á meðal reglum er lúta að vernd atvinnuréttinda, segir í áliti lögmannstofunnar LEX um hugsanlega endurúthlutun á kvótum í úthafsrækju, að því er fram kemur á vefnum bb.is. Álitið er unnið fyrir Agustson ehf., Brim hf, Fisk Seafood ehf., Hraðfrystihúsið Gunnvöru hf., Ramma hf. og Samherja hf. til að kanna hvernig sé rétt að úthluta aflamarki í úthafsrækju komi til þess að veiðar á tegundinni verði á ný takmarkaðar.
„Aflahlutdeildarkerfi hefur verið við lýði við rækjuveiðar frá árinu 1988 og hafa aðilar fjárfest í aflahlutdeild í tegundinni í trausti þess að geta nýtt þær við veiðar. Sjónarmið um réttmætar væntingar eru því til þess fallin að styrkja stjórnskipulega vernd aflaheimilda í úthafsrækju. Sé ætlunin að svipta menn með einhverjum hætti þeim réttindum sem tengjast aflahlutdeild er löggjafinn bundinn af ákvæðum stjórnarskrárinnar, þar á meðal reglum er lúta að vernd atvinnuréttinda á grundvelli 72. gr. stjórnarskrárinnar, svo og sjónarmiðum á borð við stjórnskipulegt meðalhóf, réttmætar væntingar og réttaröryggi sem hafa þýðingu við túlkun verndarinnar,“ segir í áliti lögmannsstofunnar LEX .
Sjá nánar http://www.bb.is/Pages/26?NewsID=182815