Ekki er von á dráttarbátnum Magna úr endurbótum hjá Damen skipasmíðastöðinni í Hollandi fyrr en í fyrsta lagi í febrúar á næsta ári. Báturinn, sem smíðaður var í skipasmíðastöð fyrirtækisins í Víetnam, kom til Reykjavíkur í febrúar á þessu ári en fljótlega komu í ljós bilanir og gallar. Báturinn kostar Faxaflóahafnir yfir einn milljarð króna. Að sögn Magnúsar Þórs Ásmundssonar, hafnarstjóra Faxaflóahafna, hefur ekki komið til tals að rifta kaupunum.
Ágallarnir reyndust viðameiri en í fyrstu var talið og smíðagæði langt undir því sem kveðið var á um í samningum. Bátnum var siglt til Hollands í júlí til viðgerða sem átti að ljúka í ágúst. Úrbæturnar reyndust það umfangsmiklar að verklok voru síðar miðuð við desember. Nú er ljóst að enn frekari tafir verða á afhendingu bátsins.
„Það er ljóst að þetta ferli hefur tafist og báturinn kemur ekki til okkar fyrr en í febrúar en við erum með lánsbát fyrir Damen þangað til Magni kemur,“ segir Magnús Þór.
Langur listi
Fiskifréttir greindu frá því 30. ágúst sl. að lagfæra þyrfti eldsneytisinnsprautunarkerfi aðalvélar, uppsetningu á fóðringum, hreinsa ferskvatnstanka, lagfæra leka frá útblásturskerfi sem ekki var úr ryðfríu stáli, rétta af aðalvél, lagfæra óeðlilegan gang ljósavélar og rafala, skipta um framvindu, gera við eða setja upp nýja afturvindu, gera við brunadælur sem voru ryðgaðar, lagfæra leka frá gírkassa og leka frá azimuth skrúfum og leka frá aðalloftræstikerfi og setja upp loftræstikerfi í brú sem skipasmíðastöðinni hafði láðst að gera.
Viðmælendur Fiskifrétta töldu að eftirliti við smíði bátsins hafi verið verulega ábótavant. Töldu sumir réttast að taka ekki við bátnum og sögðu að svo veigamiklar úrbætur sem ráðast þyrfti í kæmu ávallt niður á gæðum hans.
Ný skrúfutækni
Magni er 32 metra langur, 12 metra breiður og með tvær 2.025kW aðalvélar, samanlagt 6.772 hestöfl. Togkraftur dráttarbátsins er 85 tonn áfram og 84 aftur á bak en það var samanlagður togkraftur allra dráttarbáta Faxaflóahafna við komuna til landsins, en þeir voru þá fjórir talsins. Stefnt er að því að fjórir dráttarbátar verði í flota Faxaflóahafna.
Nýr Magni býr yfir nýjustu tækni á mörgum sviðum þar á meðal svokallaðri azimuth skrúfutækni. Ekki er í bátnum hefðbundið stýri heldur er honum stýrt með skrúfunum sem býður upp á mun liprari stýringu en á hefðbundnum bátum. Kaupum á Magna fylgdi námskeið fyrir skipstjórnendur og hefur hluti þeirra þegar sótt námskeið erlendis í stjórnun á bátnum.
Faxaflóahafnir er sameignarfélag í eigu fimm sveitarfélaga og er Reykjavíkurborg langstærsti eigandinn.