Undanfarin ár hafa humarveiðar við Ísland einkennst af minnkandi afla. Nýliðunarbrestur hefur verið viðvarandi síðan 2005 og rannsóknir benda til þess að nýliðun í humarstofninum verði áfram með lakasta móti. Ekki er hægt að útiloka bann við humarveiðum  – svo alvarleg er staðan.

Þetta kom meðal annars fram í erindi Jónasar Páls Jónassonar, fiskifræðings á Hafrannsóknastofnun, sem bar yfirskriftina Veiðar á leturhumri - sögulegt yfirlit aflabragða og stofnþróunar, og var flutt á málstofu Hafrannsóknastofnunar í síðustu viku. Erindið byggði á hans rannsóknum og forvera hans í starfi Hrafnkels Eiríkssonar.

Belgar og Frakkar fyrstir

Veiðar á humri – eða leturhumri eins og hann er réttnefndur - hófust hér við land í byrjun sjötta áratugarins. Hér er tegundin við norðurmörk útbreiðslu sinnar og hafa aflabrögð og útbreiðsla veiðanna sveiflast nokkuð með hlý- og kuldaskeiðum. Hámarksafli náðist árið 1963 þegar sex þúsund tonnum var landað. Undanfarin misseri hafa humarveiðar við Ísland einkennst af minnkandi afla á sóknareiningu auk þess sem veiðislóðin hefur stækkað og ný svæði verið numin.

Leturhumarinn er eina humartegundin sem finnst við Ísland. Norðmörk útbreiðslu tegundarinnar eru hér við land. Tegundin er hins vegar útbreidd – má finna frá ströndum Marokkó og Miðjarðarhafi og norður í Norðursjó. Nýliðun hér við land er hæg  vegna sjávarkulda – kvendýrið þroskar ekki egg nema annað hvert ár. Humarinn grefur sig í holur sem stjórnar því hversu aðgengilegur hann er – þetta þarf að hafa í huga þegar rætt er um aflabrögð. Fiskgengd hefur þannig áhrif á humarveiði, þar sem humarinn heldur sig frekar í holum sínum þegar náttúrulegir óvinir hans eru á sveimi.

Jónas Páll reifaði hvernig veiðar á humri hafa þróast í gegnum áratugina. Fyrst er getið um humar í ferðabókum Eggerts og Bjarna árið 1778. Við upphaf trollveiða veiddist töluvert af humri við Suðvesturland en fyrstu tilraunirnar til beinna veiða voru síðan árið 1939 á bátnum Aðalbjörgu í Selvogi og kringum Vestmannaeyjar, en á þeim varð ekki framhald. Það er ekki fyrr en um 1950 að Belgar og Frakkar hefja veiðar á humri við Ísland. Íslendingar taka við sér nokkrum árum síðar.

Sveiflur í veiði og útgerð

Veiðarnar hafa frá upphafi einkennst af sveiflum, en þær sveiflur ná ekki aðeins til afla heldur líka til útgerðarinnar sjálfrar. Vertíðarbátar fóru yfirleit á humartroll eftir að netavertíð lauk. Vertíðin var styttri en nú er – stóð gjarna frá því í maí til júlí. Fyrstu árin voru allt að því 170 bátar á humarveiðum. Í dag er þetta gjörbreytt. Árið 2017 voru níu bátar á þessum veiðum og sjö þeirra náðu yfir 100 tonna afla. Sífellt öflugri  skip stunda nú veiðarnar, og flestir  þeirra veiða með tvö troll. Vertíðin er að lengjast og hefjast 15. mars og standa allt fram í nóvember/desember. Engu að síður er langbesta veiðin í apríl og maí.

Aldrei sé viðlíka ástand

Nýliðun humars hefur minnkað síðan 2005 og hefur aldrei verið metin eins lítil og nú. Viðmiðunarstofn hefur minnkað hratt undanfarin ár og hefur ekki verið lægri frá 1980. Hlutfall stórhumars er jafnframt hátt en hefur minnkað frá 2009 og virðist því veiðin mestöll koma úr eldri árgöngum, en humar er hægvaxta og nær um 20 ára aldri.

„Við höfum aldrei séð viðlíka ástand,“ sagði Jónas Páll í erindi sínu en útgefinn kvóti fyrir yfirstandandi vertíð er 1.150 tonn. Stofninn var í upphafi veiða metinn um 30.000 tonn en hefur síðan farið minnkandi „með ógnarhraða,“ sagði Jónas Páll jafnframt.

Hafrannsóknastofnun fór í árlegt humarrall í 50 ár, þar sem dregið var á föstum togstöðvum á helstu humarbleiðunum. Síðustu tvö ár hafa í staðinn verið taldar humarholur með sérstakri aðferð. Þetta er ráðlagt vinnulag frá Alþjóðahafrannsóknaráðinu (ICES) og er notað alls staðar annars staðar. Fyrstu niðurstöðurnar eru að 0,09 holur séu á fermetra botns á veiðislóð – eða um 540 milljón holur á um 6.000 ferkílómetrum þegar öll þekkt mið eru mæld og vegin saman. Veiðislóðin stækkar þó jafnt og þétt í kjölfar humarleitar á nýrri slóð. Þéttleiki humars við Írland, Skotland og víðar er mun meiri en hér. Íslenski humarinn er hins vegar stórvaxnari.

Lokað á veiðar?

Í samantekt sinni sagði Jónas Páll að Hafrannsóknastofnun hyggur á humarholuleiðangur í júní, og eins söfnun á humarlirfum sem er mjög erfitt. Fjölgeislagögn verða nýtt til að afmarka betur slóðina, sem mun nýtast sjómönnum jafnt sem til rannsókna.

Jónas Páll nefndi einnig að erfitt er að meta það magn sem er „landað framhjá“, sem er í raun það magn sem menn taka með sér í land og selt er á svörtum markaði. Eins verður skoðað hversu mikið rask er á humarbleiðunum vegna annarra togveiða en humar sem veiðist þar er ekki landað.

En grundvallar spurningin virðist vera sú af hverju humarveiðar eru yfir höfuð stundaðar á þessum tímapunkti með tilliti til þeirra upplýsinga sem þegar liggja fyrir um nýliðun.

Í viðtali við Fiskifréttir segir Jónas Páll það í raun aðeins tímaspursmál hvenær lokað verður á humarveiðar að óbreyttu.

„Það er aðeins spurning um hvenær það gerist. Við höfum dregið úr þeim jafnt og þétt. Svo er spurning líka hvort við ráðleggjum litlar eða engar veiðar – þetta er spurning um aðferðafræði. Það eru alltaf verðmætar upplýsingar sem fást með veiðunum. Svo eru nýjar upplýsingar frá talningu á humarholum og þar eru ekki vísbendingar um fækkun milli ára. Holur humarsins falla tiltölulega hratt ef dýrin halda þeim ekki við,“ segir Jónas Páll sem dregur athygli á ný að upplýsingum í síðustu tækniskýrslu Hafró um humarveiðar um að nýliðun er í sögulegu lágmarki og verði ekki breyting þar á verði að bregðast við því.