Siglingasvið rannsóknarnefndar samgönguslysa er nú með til skoðunar slysið sem varð þegar Magnús Þór Hafsteinsson fórst er bátur hans sökk úti fyrir Patreksfirði á mánudaginn í síðustu viku.
Nokkuð margar tilkynningar hafa borist frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg það sem af er strandveiðitímabilinu um að veita hafi þurft mönnum aðstoð úti á sjó.
„Það er alveg hörmulegt að þetta hafi gerst,“ segir Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, um slysið fyrir vestan. Aðspurður kveðst hann ekki telja að fleiri óhöpp en jafnan hafi orðið í strandveiðunum í vor og sumar. „Þetta gæti líka legið í því að menn séu duglegri að koma tilkynningum á framfæri.“
Jón Pétursson, sviðsstjóri siglingasviðs rannsóknarnefndar samgönguslysa, tekur í svipaðan streng varðandi samanburð við fyrri ár.
Fylgjast með hvor öðrum
„Miðað við fjölda báta er þetta innan skekkjumarka,“ segir Jón. „Á sama tíma í fyrra voru 20 tilkynningar og það eru komnar 28 tilkynningar núna. Það voru frekar fáar tilkynningar í fyrra en þær voru fl eiri árin á undan. Það er enginn stórkostlegur munur.“
Örn segir að rekinn sé töluverður áróður fyrir öllum sem tengist öryggi og Samgöngustofa hafi verið mjög vakandi að upplýsa sjómenn.
„Menn þurfa náttúrlega að átta sig á því að þarna er fimm til sex hundruð bátar á sjó í einu og auðvitað getur komið ýmislegt upp, eins og bilanir og annað slíkt sem menn ráða ekkert við,“ segir Örn sem kveður vera gríðarlega mikla samheldni í hópi strandveiðimanna. „Menn fylgjast með hvort öðrum og aðstoða og gefa góð ráð. Það hefur reynst mjög vel.“
Þá nefnir Örn sérstaklega hversu jákvætt það sé fyrir öryggi strandveiðimanna að tryggt sé að þeir fái 48 veiðidaga. „Mér hefur fundist vera aðeins meiri ró yfir mannskapnum til veiða. Ég er að heyra meira í mönnum sem núna eru í landi þegar það er kaldaskítur en þegar hitt kerfið var, og menn vissu af því að það myndi lokast á næstu dögum, þá var miklu harðari sókn til þess að reyna að ná þessum tólf dögum,“ segir Örn og bendir á að í fyrra hafi 233 bátar verði með alla tólf dagana í maí en nú hafi þeir verið mun færri, eða 166, þrátt fyrir að heildarfjöldi strandveiðibáta sé meiri núna og veður svipað.
Þeir eldri leiðbeina
„Þetta sýnir að sóknarmynstrið hefur breyst töluvert mikið. En það er aldrei of varlega farið og það þarf að huga að öllu. Menn eru með tékklista sem þeir skoða vel. Bátarnir fara ekki á sjó öðruvísi en að hafa verið skoðaðir og með fullgilt haffærisskírteini og ég veit ekki nnað en að það sé vel staðið að skoðun þessara báta,“ segir Örn sem kveðst ekki heyra annað en eftirlit með þessum bátum sé einnig stíft.
„Þegar menn eru að byrja og eru kannski nýliðar þá veit ég til að eldri menn er að leiðbeina og eru mjög greiðugir á upplýsingar. Svo má ekki gleyma að veðurspárnar hafa alveg gjörbreyst. Þær eru orðnar miklu öruggari heldur en var áður fyrr. Þetta hefur allt hjálpað til að menn geti stundað þetta án óhappa,“ segir Örn. Strandveiðimenn séu duglegir að tala saman. „Ég held að það sé aukin umræða um öryggismálin innan hópsins.“
Eins og áður segir rímar það sem Örn segir nokkuð vel við tölur siglingasviðs rannsóknarnefndar samgönguslysa.
Mest í byrjun tímabils
Að sögn Jóns Péturssonar sviðsstjóra eru nú sex mál tengd smábátum þar til athugunar. Hann tekur fram að bátar undir fimmtán metrum séu ekki teknir til rannsóknar ef um sé að ræða að þeir verði vélarvana nema það sé eitthvað sérstakt „Við rannsökum ef það verður strand, bátur sekkur eða brennur,“ útskýrir hann.
Þótt einhverjar dálitlar sveiflur sé milli ára segir Jón breytinguna ekki marktæka.
„Þetta er sambærilegt og árin á undan. Ef þú tekur tillit til þess hvað það eru margir bátar má segja að það sé enginn stórkostlegur munur,“ segir Jón og bendir á að venjulega hafi flestar tilkynningar borist við upphaf strandveiða.
„Svo fara bátarnir að hrökkva í lag og þetta minnkar alltaf þegar líður á vertíðina,“ segir Jón og minnir á Samgöngustofa hafi gefið út mikil tilmæli til strandveiðisjómanna og tékklista um það sem þurfi að vera í lagi. „Það hefur örugglega hjálpað til.“