„Til skemmri tíma litið ætti markaðurinn að hressast í október til desember. Þegar rigningartíma lýkur og jólamarkaðurinn er í augsýn verður trúlega vöntun á vöru vegna minni framleiðslu. En til lengri tíma litið er ég ekki bjartsýn, ekki ennþá. Það er ekkert í spilunum sem gefur ástæðu til bjartsýni, því miður.“
Þetta segir Katrín Sigurjónsdóttir framkvæmdastjóri Sölku fiskmiðlunar á Dalvík í samtali við Fiskifréttir um ástandið á markaðnum fyrir þurrkaðar afurðir í Nígeríu. Katrín var í íslensku sendinefndinni sem Lilja Dögg Alfreðsdóttir utanríkisráðherra var í forustu fyrir í ferð til Nígeríu í lok síðasta mánaðar.
Katrín segir að ástandið á nígeríska markaðnum hafi lítið breyst undanfarnar vikur. „Rigningartíminn stendur nú yfir og það er yfirleitt slakur tími fyrir markaðinn. Gengið á svarta markaðnum hefur verið stöðugt í næstum mánuð í kringum 425 nærur á móti dollar. Það er lítið um peninga í umferð og kaupmáttur lítill,“ segir Katrín. Fram kemur í máli hennar að verðið hafi lækkað dálítið misjafnt eftir tegundum, en þegar á heildina er litið sé það rétt um helmingur af því sem það var fyrir rúmu ári.
Á tólf mánaða tímabili, frá maí 2015 til apríl 2016 dróst verðmæti útflutnings frá Íslandi til Nígeríu saman úr 16,4 milljörðum króna í 9,4 milljarða miðað við sambærilegt tólf mánaða tímabil á undan. Ástæðan er að megninu til samdráttur í sölu þurrkaðra afurða.
Sjá nánar um ástandið í Nígeríu í Fiskifréttum.