„Ég botna lítið í gauraganginum og hvernig mál eru unnin af hendi ráðuneytisins“ segir Arthur Bogason, formaður Landssambands smábátaeigenda, þegar hann er inntur álits á því starfi sem nú er í gangi bæði á þingi og í Matvælaráðuneyti Svandísar Svavarsdóttur.

„Á sama tíma og verið er að skarta þessari stóru samráðsnefnd – „Auðlindin okkar“ er hamast með alls konar frumvörp á Alþingi um mjög umdeild mál. Ég hefði haldið að það ætti að láta þessa nefnd skila niðurstöðum áður en farið yrði í það. En svo er ekki. Hvert er þá hlutverk þessarar nefndar?“

Á yfirstandandi þingi, sem nú er á endasprettinum, hefur Matvælaráðherra lagt fram fjögur frumvörp um stjórn fiskveiða og tvö um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands sem öll hafa veruleg áhrif á smábátaveiðar. Nú þegar er búið að samþykkja frumvörp um orkuskipti krókabáta, rafvæðingu smábáta og afnám aflvísisviðmiða, en óvíst er enn um afdrif frumvarpa um kvótasetningu grásleppu og svæðaskiptingu strandveiða.

Væri kraftaverk

Þar á ofan hefur í vetur staðið yfir vinna í stóru samráðsnefndinni undir yfirskriftinni „Auðlindin okkar“. Arthur hefur setið á fundum þeirrar nefndar, en hefur litla trú á verkefninu.

„Ég sagði það strax í upphafi, og hef bara styrkst í þeirri skoðun minni, að það væri hreint kraftaverk ef fjallið fæddi mús.“

Varðandi frumvörpin segist hann ekki átta sig á því hvort „passað sé upp á að vinstri höndin viti hvað sú hægri sé að gera.“

Þannig leiði aflvísisfrumvarpið til þess að veiðisvæði togaraflotans stækki „en á sama tíma er verið að vinna með tillögu sem heitir 30/30 sem skilgreinist af því að Ísland er búið að skrifa undir samkomulag á alþjóða vettvangi um að það skuli friða 30% af íslenskum fiskimiðum fyrir árið 2030. Þetta er eitthvað sem ég næ ekki uppí.“

Á miðvikudagsmorgun mætti Arthur svo á fund atvinnuveganefndar þar sem verið var að ræða grásleppufrumvarpið.

„Ætli maður sitji ekki uppi með það að enn eina ferðina er verið að búa til samþjöppun sem mun fækka í smábátaflotanum.“

Stangast á

„Ég get ekki séð að það valdi svefntruflunum á Alþingi að á sama tíma og kvótasetja skuli grásleppuna er ráðuneytið og alþingi í megnustu vandræðum með að ganga þannig frá strandveiðikerfinu að sómi sé að.

Við það að kvótasetja grásleppuna eykst þrýstingurinn á strandveiðikerfið. Á þessa augljósu staðreynd er hvergi minnst í texta ráðuneytisins varðandi grásleppufrumvarpið.“

Varðandi frumvarpið um að taka aftur upp svæðaskiptingu á strandveiðum þá hafa smábátaeigendur komið með nýtt útspil: Betra væri að fækka dagafjöldanum frekar en að eiga á hættu að stytta þurfi tímabilið þegar leyfilegur heildarafli er uppurinn.

„Við höfum lagt þessa tillögu fram en það virðist ekki skipta neinu máli. Það er ekkert samráð, ekkert samtal. Hvað sem því líður vil ég trúa þeim orðum sem Svandís lét falla á aðalfundi Landssambands smábátaeigenda í október sl, að við mættum kalla hana „strandveiðiráðherra“.

Arthur Bogason, formaður Landssambands smábátaeigenda. FF MYND/Eyþór
Arthur Bogason, formaður Landssambands smábátaeigenda. FF MYND/Eyþór
© Eyþór Árnason (Eyþór Árnason)