„Raunveruleikinn er því miður sá að við náðum ekki einu sinni samkomulagi um að hætta að styrkja ólöglegar fiskveiðar,“ hefur Reuters-fréttastofan eftir Ceciliu Malmström, viðskiptastjóra Evrópusambandsins, eftir að ellefta ráðherrafundi Heimsviðskiptastofnunarinnar (WTO) lauk í gær.

„Okkur tókst ekki að komast að niðurstöðu í neinum fjölþjóðamálum,“ sagði hún.

Ráðherrafundurinn var haldinn í Buenos Aires í Argentínu dagana 10. til 13. desember. Fyrir fundinn var vonast til þess að samkomulag tækist á ýmsum sviðum heimsviðskipta, þar á meðal varðandi ríkisstyrki til ósjálfbærra og skaðlegra fiskveiða. Íslendingar hafa meðal annarra þjóða lagt mikla áherslu á að dregið verði úr ríkisstyrkjum, en höfðu ekki erindi sem erfiði á þessum fundi.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra sat fundinn fyrir Íslands hönd og kom inn á þetta mál í ræðu sinni á mánudaginn.

„Ég lagði áherslu á að skilaboð ráðherrafundarins væru skýr um að lokið verði við gerð samnings um að draga úr ríkisstyrkjum til ósjálfbærra og skaðlegra fiskveiða strax á næsta ári svo samningurinn geti tekið gildi fyrir árið 2020, eins og kveðið er á um í Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna,“ sagði Guðlaugur Þór í ræðu sinni.

[email protected]