„Hér er ekkert að sjá og ekkert að fá af loðnu,“ sagði Bergur Einarsson skipstjóri á Hoffelli SU þegar Fiskifréttir slógu á þráðinn til hans um klukkan 11 í morgun en þá var hann að leita í Nesdýpi úti af Vestfjörðum. Mörg önnur loðnuskip eru á svipuðum slóðum í mjög góðu veðri en loðnan lætur ekki sjá sig.
„Í fyrradag könnuðu skipin ástandið í Breiðafirði og Faxaflóa en þar var bara svartan karl að fá,“ sagði Bergur. Í gær var bræla og því ekki leitarveður.
- Eru menn orðnir smeykir um að vertíðin sé búin?
„Það fara nú að renna á mann tvær grímur eftir daginn í dag ef ekkert finnst við þessi góðu skilyrði, en oft lætur loðnan ekki á sér kræla fyrr en eftir hádegi svo það er ekki öll von úti enn.“
Samkvæmt tölum Fiskistofu eru um 20.000 tonn óveidd af kvótanum ef allar loðnulandanir hafa verið færðar til bókar. Skráður afli er 106 þúsund tonn af um 127 þús. tonna kvóta.