Alþingi samþykkti í síðustu viku ný lög um makrílveiðar. Þar er gert ráð fyrir að skipum verði skipt i tvo flokka, A og B, og fara línu- og handfærabátar í B-flokkinn en önnur skip í A-flokkinn.
Unnsteinn Þráinsson, formaður Félags makrílveiðimanna, segir sína menn varla vita hvaðan á þá stendur veðrið eftir að lögin voru samþykkt.
„Það er eins og við hefðum verið slegnir í höfuðið, maður er bara vankaður,“ segir hann spurður um fyrstu viðbrögð við nýju löggjöfinni.
„Ég segi fyrir mína parta að ég trúði því aldrei nokkurn tímann að þetta gæti farið svona, að mönnum skyldi detta þetta í hug.“
Hann segir í nýju lögunum sé það einkum tvennt sem hann sjái ástæðu til að gagnrýna harðlega.
„Annað er að þegar miðað er við þessi tíu ár þá þynnist veiðireynsla okkar út. Skerðingin á okkur er gríðarlega mikil miðað við þá kvóta sem við höfðum frá árinu 2015. Hitt er að setja okkur í sérpott og heimildirnar eigi svo að færast sjálfkrafa yfir á stórútgerðina eftir 15. september ef við verðum ekki búnir að klára þær.“
Gróf mismunun
Þetta tvennt felur í sér grófa mismunun, að mati Unnsteins.
„Síðan er okkur boðið að leigja úr línu- og handfærapotti á tvöföldu veiðigjaldi, einhverjum 4000 tonna potti. Heimildirnar skornar niður um helming hjá okkur og síðan er okkur boðið að borga það til baka á hverju ári.“
Næsta skref félagsins hljóti því að vera að skoða möguleikana á málshöfðun.
„Það verður örugglega það fyrsta sem við gerum að fá úr því skorið hvort þetta megi, hvort það megi fara svona illa með ákveðinn útgerðarhóp. Ég held að þetta geti alls ekki staðist jafnræðisreglu.“
Fleiri eru óánægðir með nýju lögin, þar á meðal framkvæmdastjóri Ísfélagsins í Vestmannaeyjum, en Ísfélagið vann í vetur ásamt útgerðarfélaginu Hugin í Vestmannaeyjum sigur í dómsmáli vegna fyrra fyrirkomulags við úthlutun á heimildum til makrílveiða.
Vonbrigði
„Þetta eru vonbrigði, það er ekki hægt að neita því,“ segir Stefán Friðriksson, framkvæmdastjóri Ísfélagsins um nýju löggjöfina. „Við gerðum ráð fyrir því að það yrði horft meira á niðurstöðu Hæstaréttar við lagasetninguna. Við fyrstu sýn lítur út fyrir að með þessu sé í raun og veru verið að lögfesta þetta ólögmæta ástand sem verið hefur, og það er náttúrlega umhugsunarefni.“
Hann sagði þó enn engar ákvarðanir hafa verið teknar um framhaldið.
„Við tökum bara eitt fyrir í einu. Það á eftir að úthluta. Við gerðum ráð fyrir að okkar hlutur yrði eitthvað réttur, en eigum eftir að sjá hvernig þetta lítur út.“
Landssamband smábátaeigenda (LS) segir, í yfirlýsingu á vef sínum, það mikil vonbrigði að ekki hafi verið fallist á þá kröfu að veiðireynsla smábáta tæki mið af árunum 2013 til 2018, þegar veiðar þeirra voru að fullu hafnar.
„Einnig eru mikil vonbrigði að þeir sem fá hlutdeild í makríl skuli vera undir það settir að það sem ekki hefur náðst að veiða fyrir tiltekna dagsetningu verður fært yfir á uppsjávarflotann,“ segir LS ennfremur.
Þetta eru í grunninn sömu meginathugasemdir og Félag makrílveiðimanna er með.
Úthlutunar beðið
Smærri bátar gátu ekki byrjað að veiða makríl að neinu marki fyrr en árið 2013, því þá fyrst var hann kominn í nægjanlegu magni inn á miðin sem þeir sækja í.
Enn er beðið úthlutunar aflaheimilda ársins á grundvelli nýju laganna, en bráðabirgðaúthlutunar frá Fiskistofu er að vænta innan skamms, eða fljótlega eftir að reglugerð frá ráðuneytinu hefur verið birt.
Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra lagði frumvarp sitt fram í lok mars og er meginefni þess að miða skuli úthlutun makrílkvóta við tíu af þeim ellefu árum sem liðin eru frá því Íslendingar tóku að veiða makríl svo nokkru nemi.
Atvinnuveganefnd gerði breytingartillögur við frumvarpið, sem lutu að því að úthluta línu- og handfærabátum sérstökum fjögur þúsund tonna potti. Greiða þarf sérstakt gjald fyrir þær aflaheimildir, og nemur það sömu upphæð og veiðigjald fyrir makríl.
„Eftir 15. september ár hvert er ráðherra heimilt að ráðstafa því sem eftir er til fiskiskipa í A-flokki gegn sama gjaldi,“ segir ennfremur í lögunum.
Að öðru leyti er óheimilt að flytja aflaheimildir frá línu- og handfærabátum yfir til uppsjávarflotans.
Skilur ekkert
Sem fyrr segir segist Unnsteinn, formaður Félags makrílveiðimanna, ekki skilja neitt í þessari afgreiðslu þingsins.
„Ég veit ekki hvað mönnum gengur til, nema það hafi verið hugmyndin að koma þessu yfir á stórútgerðina. Ég næ þessu bara ekki.“
Þær breytingar sem atvinnuveganefnd gerði á frumvarpinu hafi mögulega átt að styrkja stöðu smærri báta.
„Atvinnuveganefndin hélt sennilega að hún væri að gera okkur einhvern greiða með þessum potti, en það er engan veginn sanngjarnt að taka af okkur heimildirnar sem við erum búnir að vera með í nokkur ár, og þurfa svo að fara að leigja heimildirnar af ríkinu.“
Félag makrílveiðimanna gagnrýndi upphaflega frumvarpið í athugasemd, sem félagið sendi til nefndarinnar. Hann segist þó ekki viss um að félagið hefði farið í mál ef upphaflega frumvarpið hefði verið samþykkt.
„Það eina sem við settum í rauninni út á upphaflega frumvarpið var að heimildirnar voru teknar niður. En engu að síður sátu allir við sama borð, má segja, það var ekki verið að gera upp á milli útgerða að öðru leyti en út frá reynslunni.“
Bótakröfur
Félag makrílveiðimanna var formlega stofnað árið 2017 en þeir útgerðarmenn, sem stofnuðu félagið, höfðu þá haft náið samstarf árum saman, eða allt frá því þeir hófu að veiða makríl í íslenskri lögsögu þegar stofninn var að byrja að fikra sig hingað.
Veiðiheimildum í makríl var fyrst úthlutað árið 2011 með reglugerð sem Jón Bjarnason, þáverandi sjávarútvegsráðherra, setti. Það fyrirkomulag hefur í meginatriðum haldist lítt breytt þangað til Hæstiréttur kvað í desember 2018 upp dóm í máli tveggja útgerða, Hugins ehf. í Vestmannaeyjum og Ísfélags Vestmannaeyja hf., gegn íslenska ríkinu.
Hæstiréttur komst þar að þeirri niðurstöðu að úthlutanir á grundvelli reglugerðanna hafi verið ólögmætar, útgerðir hafi ekki fengið úthlutað aflaheimildum í samræmi við lög og þær ættu því rétt á skaðabótum úr ríkissjóði fyrir tapaðar aflaheimildir á árunum frá 2011.
„Frumvarp þetta er til þess hugsað að draga verulega úr kostnaði ríkissjóðs,“ segir í athugasemdum við frumvarpið, en jafnframt tekið fram að „uppgjör bótakrafna vegna veiðistjórnar makríls frá árinu 2011 er frumvarpi þessu óskylt.“
Nokkrar leiðir komu til greina við að greiða úr þeim vanda sem ríkið stóð frammi fyrir, en á endanum var ákveðið að fara þá leið að lögin yrðu samin með hliðsjón af því sem gert var árið 2002 þegar veiðiheimildum var í fyrsta sinn úthlutað úr norsk-íslenska síldarstofninum, sem þá var tekinn að veiðast á ný eftir áratuga hlé.
Sú ætlar þó ekki að verða sú málamiðlun sem ráðherra virðist hafa vonast til og allt bendir til þess að skaðabótakröfum verði haldið til streitu og frekari málaferli séu á leiðinni.
Steingrímur fór mikinn
Steingrímur J. Sigfússon, þingforseti og fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, fór mikinn undir lokin á þingumræðum um makrílveiðifrumvarpið. Hann dró hvergi undan þegar hann vék máli sínu að málaferlum sem boðuð hafa verið:
„Það verður þeim útgerðum til skammar sem ætla að fara að sækja sér fjármuni til skattgreiðenda þegar verið er að færa þeim gríðarlega verðmæt réttindi og réttindi sem þeir hafa notið undanfarin ár því skaðabótamennirnir verða væntanlega þeir sem hafa haft af því góða afkomu að veiða makríl undanfarin ár og munu gera í framtíðinni. Ég öfunda ekki þá eigendur eða stjórnendur sjávarútvegsfyrirtækja sem ætla að bjóða íslensku þjóðinni upp á það.“
Hann sagði „tal um milljarða eða milljarðatuga skaðabætur fráleitt, vegna þess að þetta eru aðilar sem hafa veitt og haft góða afkomu af því að veiða makríl.“
Loks sagðist hann ekki kvíða málaferlum enda liggi tjónið ekki fyrir, en „fari svo að útgerðin fái sér dæmda, stór eða smá, einhverjar skaðabætur þá legg ég til að hún borgi þær skaðabætur sjálf í formi hærri auðlindagjalda á komandi árum.“