„Sjávarútvegur hefur verið uppspretta helstu tækniframfara og nýsköpunar í hinu íslenska hagkerfi og samvinna fyrirtækja í sjávarútvegi, vísindasamfélagsins og yfirvalda hefur verið mikil og öflug,“ segir í nýlegri skýrslu um Stöðu og horfur í íslenskum sjávarútvegi.

Tækninýjungar á borð við vatnsskurð og ofurkælingu auka verðmæti aflans og auðvelda fullnýtingu. Farið er að nota fiskroð í lækningavörur og fæðubótarefni. Ensím úr slógi eru einnig nýtt í lækningavörur. Þá hefur öflugur iðnaður verið að skapast í kringum þurrkun og niðursuðu á aukaafurðum.

„Síðustu áratugi hefur orðið bylting í nýsköpun og tækniþróun sem tengist sjávarútvegi, ekki síst í nýtingu hliðarafurða sjávarútvegs. Margar afurðir sem áður var hent eða voru nýttar til að framleiða mjög verðlitlar vörur eru nú orðnar margfalt verðmætari en jafnvel dýrustu hlutar fiskflaksins,“ segir í þessari skýrslu, sem Sveinn Agnarsson og fleiri tóku saman fyrir atvinnuvegaráðuneytið og birt var fyrr á árinu.

MIkilvægi hugverkaverndar

Í skýrslunni er sérstaklega vakin athygli á því hve hugverkavernd og einkaleyfi séu mikilvæg í íslenskum sjávarútvegi og víðar í íslensku atvinnulífi.

Bent er á að þau fyrirtæki sem leggja mikið upp úr vernd hugverka standi undir 29% af störfum á Íslandi og 40% af vergri landsframleiðslu. Auk þess greiði þessi fyrirtæki um 47% hærri laun en önnur fyrirtæki, og þau íslensku fyrirtæki sem nýta einkaleyfi í sinni starfsemi greiða laun sem eru 72% hærri.

Þekkt dæmi um sjávarútvegstengd fyrirtæki í þessum hópi eru Marel hf og Skaginn 3X, Kerecis hf og Genís hf.

„Fyrirtækin skila umtalsverðum tekjum til þjóðarbúsins, skapa fjölbreytt störf víðsvegar á Íslandi og auka fjölbreytni útflutningsafurða. Þessi aukna nýsköpun og þróunarvinna hefur breytt eðli starfa í sjávarútvegi og tengdum greinum.  Hefðbundnum störfum hefur fækkað en störfum fjölgað fyrir sérfræðimenntað fólk og þá sérstaklega í hliðargreinum.“

Meira en helmingur

Í nýlegri greiningu á einkaleyfum og umsóknum um einkaleyfi kemur fram að meira en helmingur þeirra íslensku einkaleyfa sem eru í gildi hér á landi tengist sjávarútvegi. Þá tengist rúmlega fimmtungur allra íslenskra einkaleyfisumsókna undanfarinn áratug sjávarútvegi.

Frá þessari greiningu er sagt í síðustu ársskýrslu Hugverkastofunnar, en greiningin var gerð af Hugverkastofu í samvinnu við Nordic Patent Institute í lok árs 2020. Súluritin sem fylgja þessari grein eru unnin upp úr þeirri greiningu.


„Við höfum ekki tekið þetta saman svona áður en tölurnar sýna hvað nýsköpun í iðnaði tengdum sjávarútvegi er fyrirferðarmikil hér á landi“ segir Pétur Vilhjálmsson hjá Hugverkastofunni.

„Frá 2010 hefur samtals 31 íslenskur aðili sótt um einkaleyfi hér á landi tengd sjávarútvegi og þar af hafa 9 aðilar sótt um oftar en tvisvar,“ segir í ársskýrslunni. „Íslenskir eigendur sjávarútvegstengdra einkaleyfa eru samtals 21 en aðeins 5 þeirra eiga fleiri en tvö einkaleyfi,“ segir þar ennfremur og af öðrum þjóðum eiga einungis þýsk fyrirtæki fleiri sjávarútvegstengd einkaleyfi hér á landi en íslenskir aðilar.

Fjölbreytnin eykst

Greiningin er unnin af Hugverkastofu í samvinnu við Nordic Patent Institute í lok árs 2020, og nær til áranna 2010 til 2020. Pétur Vilhjálmsson segir að þetta sé í fyrsta sinn sem þessar upplýsingar eru teknar saman með þessum hætti.

„Tölurnar sýna hvað nýsköpun í iðnaði tengdum sjávarutvegi er fyrirverðarmikil hér á landi,” segir Pétur.

„Það er áhugavert að sjá hvað sjávarútvegurinn og nýting sjávarafurða almennt er að þróast mikið úr því að vera hráafurðaiðnaður í að verða hátæknistarfsemi, bæði á sviði vinnslu og veiðarfæra en líka í líftækni og annars konar nýtingu á sjávarafurðum. Þessu fylgir ekki aðeins aukin verðmætasköpun heldur einnig betri og hærri launuð störf hér á landi.“


Tölurnar sýna greinilega þá þróun sem orðið hefur. Stór og öflug iðnfyrirtæki á borð við Marel og Hampiðjuna voru áður fyrr ráðandi í hópi þeirra sem sóttu um einkaleyfi tengd sjávarútvegi, en fjölbreytnin er orðin miklu meiri. Kerecis, Genis, Margildi og Lipid Pharmaceuticals eru meðal fyrirtækja sem sótt hafa á önnur mið en veiðarfæri og vinnsluvélar. Þar má nefna sáraumbúðir frá Kerecis og fæðubótarefni frá Genis.

„Marel og Hampiðjan eru enn mjög virk í einkaleyfaumsóknum þó fyrirferðin sé miklu meiri hjá þeim erlendis. Þangað hljóta líka flest þessara fyrirtækja að stefna því íslenskur markaður er lítill og tekjuvonirnar liggja oftast utan Íslands.“

Sjávarútvegurinn virkastur

Pétur segir athyglisvert að í samanburði við sjávartengda nýsköpun hafi aðrir geirar á Íslandi ekkert verið mjög virkir og hann nefnir sem dæmi orkugeirann.

Inn á þetta er einnig komið í fyrrgreindri skýrslu Sveins Agnarssonar og félaga, um Stöðu og horfur í íslenskum sjávarútvegi. Þar segir að Ísland hafi sögulega séð ekki verið mjög virkt í verndun hugverka og þegar kemur að umsóknum um einkaleyfi sé Ísland almennt eftirbátur nágrannaþjóðanna.


Jarðvarmageirinn hafi til dæmis „þróað mikið af tæknilausnum, en ekki varið þær nægilega vel með einkaleyfum og því hugsanlega orðið af miklum verðmætum. Aðeins eru tvö gild einkaleyfi til staðar tengt íslenskum orkuiðnaði en ekkert tengt jarðvarmaiðnaði.“

Hvað sjávarútveginn varðar þá hafi verndun hugverka tengd honum allt fram á síðust ár verið lítil á Íslandi. Síðasta áratuginn hefur þetta svo verið að breytast, einkum þó í vaxandi hliðargreinum sjávarútvegs.

Klár tekjuvon

Fyrir nokkrum árum efndi Hugverkastofan til málþings um einkaleyfi tengd jarðvarma, þar sem fram kom að íslensk fyrirtæki ættu engin einkaleyfi á þessu sviði. „Þetta var mjög áhugavert að sjá. Íslensku orkufyrirtækin, sem almennt eru í opinberri eigu, voru ekkert að sækja um einkaleyfi á þeirri tækni sem þau voru að þróa. Það hefur verið að breytast og við vitum að þar er fólk orðið mjög meðvitað um mikilvægi þess að vernda hugverkin enda eru vernduð hugverk grundvöllur fyrir samstarfi á sviði nýsköpunar. Við höfum verið að fá umsóknir úr þeirri átt og vitum að fleiri eru á leiðinni. Það er mjög jákvæð þróun.“

Frumkvæði iðnfyrirtækja með tengsl við sjávarútveg eða aðra nýtingu sjávarafurða segir óneitanlega athyglisverða sögu, að mati Péturs. „Kannski er aðgangur að fjármagni eitthvað greiðari þar en annars staðar en á sama tíma held ég að sé ljóst að þeir aðilar sem passa upp á að vera með sín hugverkamál á hreinu og vernda hugverk með einkaleyfum eiga almennt greiðari aðgang að fjármagni," segir Pétur

„Aðilar sem hafa verið að fjárfesta í sjávartengdri nýsköpun eru ekkert að gera það að gamni sínu. Það er þarna klár tekjuvon sem hlýtur að drífa þau áfram. Fólk er ekkert að leika sér heldur hefur mikla trú á því sem það er að gera.“

Greinin birtist upphaflega í Tímariti Fiskifrétta 2021.