Steinunn Káradóttir rekur ásamt Óttari Má bróður sínum harðfiskframleiðsluna Sporð á Borgarfirði eystri. Sporður byggir á gömlum grunni.

„Fyrirtækið var stofnað á Eskifirði og var starfrækt þar þangað til foreldrar mínir keyptu það haustið 2019,“ segir Steinunn.

Foreldrar Steinunnar og Óttars eru Helga Björg Eiríksdóttir og Kári Borgar Ásgrímsson. Á þeim tíma var Sporður að sögn Steinunnar rekinn af syni annars þeirra sem settu fyrirtækið á fót árið 1952.

„Hann ætlaði að loka og hætta þessu en það leist ekki öllum vel á það, þar á meðal foreldrum mínum, og það var ákveðið að við myndum kaupa og flytja starfsemina á Borgarfjörð,“ segir Steinunn.

Gætu verið fleiri starfsmenn

Steinunn segir að um leið og foreldrar hennar hafi ekki viljað að Sporði yrði lokað hafi þau viljað fjölga störfum heima í Borgarfirði. Það muni um þrjú til fjögur störf á litlum stöðum. Hjónin hafi sjálf unnið við harðfiskvinnsluna fyrst eftir flutninginn.

Óttar Már Kárason við japönsku skurðarvélina sem keypt var til Sporðs. Mynd/Aðsend
Óttar Már Kárason við japönsku skurðarvélina sem keypt var til Sporðs. Mynd/Aðsend

„Eins og staðan er núna eru það við systkinin tvö sem stjórnum daglegum rekstri að mestu leyti. Svo er ein frænka okkar að vinna með okkur líka. Við erum því þrjú eins og stendur en gætum alveg verið fjögur eða fimm,“ segir Steinunn enda séu verkefnin næg.

„Það er búið að vera þokkalega mikið hjá okkur að gera en það fer í rauninni mikið eftir framboði og verði á fiskmörkuðum. Við kaupum fisk á mörkuðum héðan og þaðan á landinu,“ segir Steinunn.

Festist í grásleppuneti

Stundum er fiskinum sem Sporður kaupir landað á Borgarfirði eystri.

„Fiskurinn héðan er seldur í gegnum fiskmarkaðinn á Þórshöfn. Við kaupum oft af bátunum hér og það er mjög þægilegt því þá er enginn flutningskostnaður,“ segir Steinunn.

Hvorugt systkinanna var að vinna hjá Sporði í upphafi. „Alla tíð síðan ég var ellefu eða tólf ára í næstum tuttugu ár var ég á sjó með pabba mínum. Svo lenti ég í dálitlu slysi og þurfti að hætta,“ segir Steinunn sem flækti þumalfingur  í grásleppunet og braut hann illa.

„Ég hef ekkert farið á sjó síðan. Þegar ég jafnaði mig á meiðslunum kom ég í vinnu hérna og hef verið hér síðan,“ segir Steinunn.

Aðspurð segir Steinunn þau Óttar Má kunna vel við starfið og reksturinn gangi vel. „Við seljum allt sem við framleiðum,“ segir hún. Lang mest sé selt til N1 en einnig til Olís og í smærri verslanir auk þess sem þau selji frá sér beint.

Allt handflakað

„Fiskurinn okkar fæst yfirleitt í öllum  sjoppum hjá N1,“ segir Steinunn. Salan sé dálítið árstíðabundin.

„Þegar Íslendingar eru farnir að ferðast yfir sumartímann þá eykst salan. Þetta virðist svolítið vera ferðalagasnakk hjá Íslendingum.“

Sporður framleiðir bitafisk úr ýsu og steinbíti sem þau eru einmitt að verka þessa dagana. Fyrirtækið hefur fjárfest í nýrri skurðarvél frá Japan en Steinunn segir þó mest unnið í höndunum.

„Við handflökum allt en vélin sker flökin í bita fyrir okkur. Það er um það bil eina tæknin sem við erum með,“ segir Steinunn.

Enginn nennti að passa

Sem fyrr segir reri Steinunn til sjós með föður sínum um langt árabil. „Þetta byrjaði með því að það nennti enginn að passa mig og ég þurfti að vera einhvers staðar yfir daginn. Svo hélt þetta bara áfram og ég væri þar sjálfsagt enn ef ég hefði ekki meitt mig.“

Steinunn Káradóttir. Mynd/Aðsend
Steinunn Káradóttir. Mynd/Aðsend

Í símaskrá er Steinunn skráð skipstjóri og kvótaerfingi. Er hún sú eina sem skráð er sem kvótaerfingi í á ja.is. Hún hlær þegar hún er spurð um þetta.

„Ég tók pungaprófið þegar ég var í menntaskóla og þá fannst mér tilvalið að breyta mér í skipstjóra. Svo hugsaði ég með mér að pabbi gæti ekkert gert ef þetta væri komið í símaskrána, að þá yrði ég að eiga kvótann,“ segir Steinunn.

Skráningin sé því ekki tómt grín. „Pabbi vinnur enn á sjó að mestu leyti og gerir út. Öllu gríni fylgir alvara, er það ekki?“

Austurfrétt hefur einnig rætt við Steinunni um Sporð og má sjá vefútgáfu þess viðtals hér.