Fyrirhuguð skerðing á aflaheimildum í frumvörpum ríkisstjórnarinnar um fiskveiðistjórnun mun leiða til þess að sjómenn á frystitogaranum Júlíusi Geirmundssyni ÍS verði af einni milljón á ári ef aðeins er reiknað tap útgerðar og sjómanna vegna grálúðu, að því er fram kemur í viðtali við Einar Val Kristjánsson, framkvæmdastjóra Hraðfrystihússins Gunnvarar í Hnífsdal, í nýjustu Fiskfréttum.

Einar sagði að skerðing vegna frumvarpanna væri mikil en þeir hefðu aðeins reikna dæmið til enda fyrir Júlíus Geirmundsson ÍS í einni fisktegund. ,,Ef tekin verða af okkur 15% kvótans á tilteknu tímabili þá missum við alls 153 tonn af grálúðu. Miðað við verðlag í dag tapast því ár hvert aflaverðmæti upp á 115 milljónir króna. Um 25 sjómenn eru um borð hverju sinni en alls hafa 45 sjómenn árstekjur á þessu skipi. Laun og launtengd gjöld eru 46% af aflaverðmæti. Það þýðir að áhöfnin tapar rúmum 50 milljónum króna á ári. Með öðrum orðum þá tapar hver sjómannsfjölskylda sem tengist Júlíusi Geirmundssyni ÍS um það bil einni milljón á ári bara vegna skerðingar í þessari einu fisktegund,“ sagði Einar.

Sjá nánar í nýjust Fiskfréttum.