„Við erum að fara í spennandi prójekt,“ segir    Arnar Sigurðarson, skipaeftirlitsmaður hjá Eimskip.

Flutningaskipin Brúarfoss og Dettifoss voru nýlega í dokku til eftirlits í Munkebo í Danmörku. Þar var botn skipanna tveggja málaður með sílíkonmálningu. Arnar segir ekki um að ræða alveg nýja tegund málningar en kveður hana hafa þróast mikið.

„Það er minni mótstaða í þessari sílíkonmálningu þannig að þetta leiðir til minni eldsneytiseyðslu. Við erum að gæla við 6 til 8 prósentum minni eyðslu,“ segir Arnar.

Brúarfoss kom til Íslands á þriðjudag. „Það er óstaðfest en það lítur út fyrir að þetta sé að ganga eftir. Við erum að gæla við að þetta séu að minnsta kosti fimm prósent,“ segir Arnar um olíusparnaðinn í fyrstu siglingunni með nýju málningunni.

Borgar sig upp á ári

„Þetta er töluvert dýrara, en þetta er hlutur sem borgar sig upp á kannski einu ári,“ svarar Arnar spurður um kostnaðinn við sílíkonmálninguna. Gert sé ráð fyrir að hún sé til fimm ára. Fyrir liggi að fleiri skip félagsins fái sömu meðferð ef allt gengur að óskum.

„Við munum gera það sama á Lagarfossi og Selfossi ef þetta gengur vel,“ segir Arnar. Dettifoss og Brúarfoss eru stærstu flutningaskipin í eigu íslenskra aðila og komu ný til landsins á árinu 2020.

Samkvæmt upplýsingum frá Eimskipi nam olíunotkun skipaflota félagsins 79 þúsund tonnum á árinu 2022. Það jafngildir um það bil 244 þúsund tonnum af gróðurhúsalofttegundum. Það er því ljós að út frá sjónarmiðum um bæði kostnað og mengun munar mikið um hvert prósent sem tekst að spara í olíueyðslu. Samkvæmt tölum frá félaginu losun gróðurhúsaloftegunda hvert flutt tonn í fyrra 77 prósent þess sem losunin ar árið 2015.

Eins og teflon á steikarpönnu

Sérfræðingur sem Fiskifréttir ræddu við segir sílíkonmálningu ekki aðeins draga úr olíunotkun heldur séu ekki í henni eiturefni sem séu í hefðbundinni botnmálningu og eiga að hindra gróðurmyndun. Ná megi sama árangri með hefðbundinni botnmálningu sem sé vistvæn en þá þurfi að taka skipið oftar í slipp í botnhreinsun á gróðri og endurmálun. Sílíkonmálningin virki eins og teflonhúð á steikarpönnu – það festist ekkert við hana.