Undanfarnar vikur hafa birst nýjar og harla ítralegar uppýsingar um afkomu sjávarútvegsfyrirtækja, sem staðfesta að staða greinarinnar er á heildina litið mjög sterk þótt tekjur og hagnaður hafi dregist saman.

Hagstofa Íslands sendi I byrjun mánaðarins frá sér hið árlega rit, Hagur veiða og vinnslu, en þetta er það rit sem stuðst hefur verið við til útreiknings veiðigjalda ár hvert. Óvíst er þó hvort sá reiknigrunnur verður notaður lengur þar sem núgildandi lög um veiðigjald renna út í lok ársins.

Þar kemur meðal annars fram að hagnaður hafi dregist saman um tvö present eða svo, hvort sem miðað er við EBIDTA eða hreinan hagnað miðað við árgreiðsluaðferð.

Sjötta mars síðastliðinn sendi svo ráðgjafastofan Deloitte frá sér skýrslu um rekstur sjávarútvegsfyrirtækja, þar sem gerð er grein fyrir rekstrarafkomunni 2016 ásamt áætlun um það hvernig afkoman hafi orðið 2017.

Sú samantekt er sérstaklega gerð að beiðni atvinnu- og nýsköpnarráðuneytisins, en þar innandyra mun vera unnið að því að móta þær breytingar sem væntanlega verða gerðar á lögum um veiðigjald nú á vordögum.

Ytri hagstærðir neikvæðar
Meðal helstu niðurstaðna Deloitte er að tekjur í sjávarútvegi hafi dregist saman milli áranna 2015 og 2016 um 25 milljarða króna eða níu present. Ennfremur telur Deloitte að afkoman hafi haldið áfram að versna á árinu 2017, eða um 3,6 til 7,7 prósent.

Tekjur hafi þá lækkað úr 275 milljörðum árið 2015 niður í 249 milljarða árið 2016 og loks niður í 230 til 240 milljarða á árinu 2017.

Tekið er fram að á þessu tímabili, frá 2015 til 2017, hafi ytri hagstærðir almennt þróast með neikvæðum hætti fyrir sjávarútvegsfélög. Verðlag sjávarafurða í íslenskum krónum hafi lækkað verulega, en launavísitala hækkað. Aftur á móti hafi olíuverð lækkað á árinu 2016 en hækkað nokkuð á ný árið 2017.

Þrátt fyrir þennan samdrátt kemur engu að síður fram að heildarskuldir hafi lækkað og eiginfjárhlutfall hækkað. Fram kemur að lækkun skulda megi að nokkru leyti rekja til lækkunar skulda í erlendri mynt, en tekið fram að félög séu eðlilega misjafnlega skuldsett í mynt.

Eignastaðan aldrei verið betri
Samkvæmt tölum Hagstofunnar sést reyndar að eignastaðan í sjávarútvegi hefur aldrei verið betri en árið 2016. Eigið fé sjávarútvegsfyrirtækja var þá komið í 300 milljarða og hefur þá verið að aukast um tugi milljarða á nánast hverju einasta ári síðan 2009 þegar eigið fé sjávarútvegsfyrirtækja nam aðeins 13 milljörðum króna. Árið 2008 hafði eiginfjárhlutfallið hreinlega verið neikvætt, heildarskuldir sem sagt hærri en heildareignir.

Árið 2016 voru heildarskuldir sjávarútvegsins, samkvæmt Hagstofunni, um 375 milljarðar en heildareignirnar hátt í 700 milljarðar.

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, SFS, bentu á það á vef sínum 19. febrúar síðastliðinn að arðgreiðslur í sjávarútvegi hafi verið lægri en meðaltal arðgreiðslna í íslenskum atvinnurekstri almennt.

Arðgreiðslur hærri en tekjuskattur
Í tölum Hagstofunnar, bendir SFS á, kemur í ljós „að arðgreiðslur sem hlutfall af hagnaði á árunum 2010 til 2016 voru að jafnaði 21% hjá fyrirtækjum í sjávarútvegi. Á sama tímabili voru arðgreiðslur hjá öðrum geirum atvinnulífsins að jafnaði 31%.“

SFS dregur af þessu þá ályktun að upphrópanir um himinháar arðgreiðslur í sjávarútvegi eigi vart við rök að styðjast.

SFS hefur áður bent á að auðlindagjald útgerðarinnar, sem talið er að verði um það bil 11 milljarðar á yfirstandandi fiskveiðiári, nemi álíka fjárhæð og tekjuskattsgreiðslur hennar til ríkissjóðs.

Nú síðast vöktu SFS athygli á því að hækkun veiðigjalds síðastliðið haust valdi því að útgerð dæmigerðs ísfisktogara, sem hafi verið með fullan afslátt vegna skulda er tengdust kaupum á aflaheimildum, sé nú að greiða jafngildi launa sjö háseta í veiðigjald en árið áður hafi veiðigjaldið jafngilt 1,7 hásetahlutum.

Þegar tölur Hagstofunnar eru skoðaðar kemur síðan í ljós að arðgreiðslur sjávarútvegsfyrirtækja hafa undanfarin ár oftast verið nokkru hærri en greiddur tekjuskattur, eins og sjá má á yfirliti hér á síðunni. Þannig greiddu þau ríflega tíu milljarða í tekjuskatt árið 2016 en arðgreiðslur það sama ár námu 13,5 milljörðum.

Reiknigrunnur veiðigjalds
Samkvæmt lögum um veiðigjald hefur reiknigrunnur veiðigjalds sem fyrr segir byggst á tölum úr riti Hagstofunnar, Hagur veiða og vinnslu. Þar er sagt að miða eigi við svokallaðan EBT-hagnað, sem er hreinn hagnaður fyrirtækja áður en skattur er dreginn frá.

Þar sem tölurnar úr riti Hagstofunnar sýna afkomu sjávarútvegsins eins og hún var tveimur árum áður en álagning veiðigjalda hvers árs hefst, þá hefur þetta fyrirkomulag verið gagnrýnt.

Verði óbreytt fyrirkomulag haft áfram má engu að síður sjá að hreinn hagnaður sjávarútvegsins í heild, fyrrnefnt EBT, hefur hækkað á milli ára. Hann var 31 milljarður árið 2015 en mælist 33 milljarðar árið 2016.

Samkvæmt núgildandi lögum ber að veiðigjaldsnefnd að ákvarða veiðigjald næsta fiskveiðiárs eigi síðar en 1. ár hvert.