Óskar P.  Friðriksson ljósmyndari með meiru var sjálfur til sjós á sínum tíma. Undanfarna tvo áratugi eða svo segist hann reglulega hafa fengið að fara með í túra frá Eyjum til að taka myndir. Það hafi verið auðsótt mál að fá að skjótast með Þórunni Sveinsdóttur VE nú í apríl.

„Þetta var alveg glæsilegt í alla staði,“ segir Óskar P. um túrinn. „Þórunn Sveinsdóttir er fjórtán ára gamalt skip og það er ekki að sjá að hún sé fjórtán ára gömul. Það hefur verið farið svo vel með þetta.“

Óskar sem sjálfur var til sjós hér áður fyrr segir miklar framfarir hafa orðið um borð í fiskiskipum frá þeirri tíð.

Menn eyðilögðu sig áður fyrr

Óskar P. Friðriksson. Mynd/Ásmundur Kjartansson
Óskar P. Friðriksson. Mynd/Ásmundur Kjartansson

„Þegar ég var á Sæbjörgu og Heimaeynni í gamla daga var þetta eiginlega allt upp á höndina,“ segir Óskar og nefnir tæknina sem nú sé stuðst við sem mikla bót.

„Það er aðgerð og menn standa uppréttir. Ég var á Emmu gömlu í gamla daga og maður þurfti að beygja sig eftir hverjum einasta fiski því hann fór beint á dekkið. Og þegar ég var á sjó þá var náttúrlega ís í lestinni. Svo komu kör og þetta þurfti að mokast og raða upp. Núna eru menn bara með takka til að kveikja og slökkva á færibandinu og með slöngu til að sprauta krapasjó yfir. Svo er framtíðin eins og hjá Vinnslustöðinni og fleirum að setja bara í karið uppi á dekki og svo sér róbót um afganginn niðri,“ segir Óskar.

Tók utan um kokkinn

Þessar breytingar segir Óskar vera gríðarlega miklar og góðar. „Í gamla daga þá eyðilögðu menn sig og næsti tók við. Þessar breytingar hafa eðlilega haft í för með sér að það eru færri í áhöfn og á örugglega eftir að fækka meira á næstu árum. Kannski er það bara bót fyrir okkur,“ segir hann.

Um vistina um borð segir Óskar að hann hafi verið ánægður þótt hann hafi orðið að gera athugasemd við kokkinn.

„Ég tók utan um kokkinn eitt kvöldið og sagði mjög alvarlegur við hann: Það er einn galli við matinn þinn,“ segir Óskar sem kveður kokkinn hafa hváð og viljað vita hvað það væri. „Mann langar alltaf í meira,“ var svarið frá Óskari. Maturinn hafi einfaldlega verið frábær.

Seldu og nota peningana í Eyjum

Eins og fram kemur í viðtali við Óskar Þór Kristjánsson, skipstjóra Þórunnar Sveinsdóttur VE, í Sjómannadagsblaði Fiskifrétta, var skipið selt til Vinnslustöðvarinnar.

Óskar P. segir að afi Óskar Þórs, Óskar Matthíasson, hafi stofnaði útgerðina Ós á sínum tíma.

„Hann lét smíða fyrir sig vertíðarbát sem hann nefndi Þórunni Sveinsdóttur eftir mömmu sinni. Það hafa komið tveir togarar eftir það og borið þetta nafn. Vinnslustöðin kaupir útgerðina af þeim og þau eru að byggja þetta mikla hús hér og koma af stað laxeldinu. Þannig að þau nota peningana hér í Eyjum. Það er ekki verið að kaupa einhverjar verslanir í Reykjavík,“ bendir ljósmyndarinn á.