Fiskistofa metur brottkast á Íslandsmiðum allverulegt. Landhelgisgæslan fær stóran dróna í sumar sem notaður verður til að fylgjast með skipum fjær landi.

Ögmundur Knútsson Fiskistofustjóri segir að eftirlit með drónum haldi óslitið áfram eins og verið hefur frá byrjun síðasta árs. Það gæti eflst í sumar þegar Landhelgisgæslan fær stóran dróna til reynslu sem ætti að geta nýst vel við eftirlit á brottkasti.

Á síðasta ári sáu eftirlitsmenn Fiskistofu merki um brottkast hjá um 45-48%, þeirra báta sem flogið var yfir með dróna og ekki sé hægt að greina neinn mun á tíðini brottkasts eftir því hvort um smábáta eða skip er að ræða. Þetta hlutfall hefur haldist nánast óbreytt frá upphafi drónaeftirlits.

Ögmundur er spurður hve stórt hlutfall af brottkastinu geti talist smávægilegt, í þeim skilningi að einungis örfáum verðlausum fiskum sé kastað fyrir borð. Hann svarar því til að alvarleikinn sé metinn eftir því hve lengi eftirlit stóð yfir og hve mörgum fiskum var kastað á þeim tíma.

„Það gefur auga leið að ef kastað er 10 fiskum þá skiptir máli varðandi umfang og alvarleika hvort þeim var kastað á einni mínútu eða klukkustund. Einnig hvort öllum fiskum af ákveðinni tegund var kastað. Þeir sem verða fyrir því að lenda í eftirliti Fiskistofu með drónum vilja gjarnan skýla sér með því að um verðlausar tegundir sé að ræða eða ónýtan afla. Það er hins vegar afar lítið um að myndbönd úr drónaeftirliti sýni slíkt og því umtalið meira en raunveruleikinn sýnir.“

Hann segir öll myndbönd metin og sé augljóst að verið sé að henda verðlausum afla þá séu slík mál felld niður, enda er mönnum það heimilt.

„Einnig ef um óverulegt brottkast er að ræða þá er mönnum sent leiðbeiningabréf þar sem reglan um að brottkast sé óheimilt er áréttuð. Það er því ekki svo að verið sé að beita ströngum viðurlögum á smávægileg brot.“

Drónar henta misvel

Hvað stærri skipin varðar segir Ögmundur að enn sem komið er hafi of sjaldan verið fylgst með togurum að veiðum, en Fiskistofa hafi fullan hug á að efla það eftirlit.

„Við höfum átt í samræðum við Landhelgisgæsluna um að reyna að virkja eftirlit með drónum um borð í varðskipunum, og Landhelgisgæslan er að fá stóran dróna í tilraunverkefni í sumar. Við vonum að hægt verði að leggja meiri áherslu á það eftirlit núna í sumar,“ segir hann.

Ögmundur Knútsson, nýr Fiskistofustjóri
Ögmundur Knútsson, nýr Fiskistofustjóri

  • Ögmundur Knútsson fiskistofustjóri. Aðsend mynd

„Togurum og stærri skipum sem við höfum flogið yfir hefur samt fjölgað, þannig var flogið yfir stóran hluta af loðnuflotanum á ný liðinni loðnuvertíð. Það er þó flóknara að fljúga dróna frá varðskipinu heldur en frá landi og við höfum verið að horfa á hvaða drónar henti betur í eftirlit til að vera með um borð í varðskipunum.“

Beðið eftir lagabreytingum

Ögmundur segir Fiskistofu enn bíða eftir lagabreytingum frá Alþingi sem veiti lagaheimild til frekari þróun og notkun á myndavélum til eftirlits, ásamt því að styrkja heimildir til rafrænnar skráningar og drónaeftirlits.

„Það er stefnt á að fara í tilraunverkefni með myndavélaeftirlit um borð í fiskiskipum, en annars höldum við áfram með drónaeftirlit eins og verið hefur.“

Í skriflegu svari Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra við fyrirspurn frá Ingu Sæland kom fram að brottkastsmálum hafi fjölgað verulega eftir að Fiskistofa hóf eftirlit með drónum í byrjun árs 2021.

„Fram að þeim tíma voru brottkastsmál alla jafna innan við 10 ár ári, eins og sjá má í ársskýrslum Fiskistofu, og brottkast því metið óverulegt,“ segir í svarinu. „Á árinu 2021 voru brottkastsmálin hins vegar um 140 og nánast öll þeirra uppgötvuðust við drónaeftirlit.“

Nú er því svo komið að Fiskistofa metur umfang ólöglegs brottkast úr bátum og skipum við Íslandsmið allnokkurt og mun meira en áður hefur verið talið.