Arctic Fish (Dýrfiskur) hættir vinnslu á Flateyri og vinnslan flyst til Ísafjarðar.Fyrirtækið vinnur nú að því í samvinnu við Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða (ATVEST) að finna samstarfsaðila um kaup eða leigu á því húsnæði sem félagið notaði áður í eldisvinnslu sína á Flateyri. Félagið hefur fengið aðstöðu í Íshúsfélagshúsinu á Ísafirði – sem er í eigu Hraðfrystihússins-Gunnvar – og hefur þegar hafið undirbúning að uppsetningu vinnslu þar. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Atvinnuþróunarfélaginu sem greint er frá á vefnum bb.is.
Í tilkynningunni segir að á Flateyri hafi náðst samkomulag um útleigu á húsnæði til nokkurra verkefna sem muni stuðla að atvinnuuppbyggingu. Ísfell kemur á fót nótaþvotti og viðgerðaþjónustu á Flateyri og Eldisþjónustan mun einnig byggja upp aðstöðu á Flateyri. Þessi fyrirtæki eru bæði tengd fiskeldi.