Togarinn Bjartur kom til hafnar í Neskaupstað í gærkvöld með breskt tundurdufl sem festist í trollinu í síðustu viku. Duflið var hlaðið sprengiefni og áhöfnin sá það ryðga hratt áður en það var sett á kaf í fiskikar samkvæmt ráðleggingum Landhelgisgæslunnar, að því er fram kemur á vefnum RUV.is

Bjartur var í rannsóknarleiðangri milli Íslands og Færeyja í síðustu viku.  Á miðnætti aðfaranótt fimmtudags sá áhöfnin torkennilegan hlut í trollinu. Skera þurfti á belginn til að losa það sem reyndist vera breskt tundurdufl hlaðið minnst 100 kílóum af TNT-sprengiefni.

Jóhann Örn Jóhannsson skipstjóri segir í samtali við RÚV að um leið og grátt duflið komst í snertingu við súrefni hafi það byrjað að snöggryðga. Á nokkrum klukkutímum hafi það orðið á litinn eins og gömul heyvinnuvél sem staðið hefur áratugum saman á túni. Áhöfnin setti sig í samband við Landhelgisgæsluna og sendi henni ljósmyndir.

Óhætt þótti að klára leiðangur togarans áður en haldið yrði til hafnar og var duflið gert óvirkt þegar komið var í land í gærkvöld.

Sjá nánar HÉR.