Ein af jólabókum þessa árs er MAGNI – ævisaga Magna Kristjánssonar skipstjóra frá Neskaupstað, sem Ragnar Ingi Aðalsteinsson frá Vaðbrekku hefur fært í letur og Bókaútgáfan Hólar gefur út. Hér á eftir verður birtur einn kafli úr bókinni og ber hann heitið Nokkrar sögur af miðunum:

Þjófstartað í Lónsbugtinni

Þetta var í lok apríl 1974 og ég var skipstjóri á Bjarti NK á togveiðum út af Austfjörðum. Það átti að opna fyrir veiðar á svæði á Lónsbugtinni 1. maí, klukkan tólf á miðnætti. Á svæðinu voru nokkrir togarar sem ætluðu að nýta sér þetta um leið og opnunin gengi í garð. Við höfðum samband í talstöðinni, ég og Birgir Sigurðsson, skipstjóri á Barða, og einhverjir fleiri og ákváðum að Tryggvi Gunnarsson, skipstjóri á Brettingi, fylgdist með tímanum og gæfi merki þegar við mættum kasta — og svo biðum við.

En það var niðaþoka, eins og hún getur orðið svörtust út af Austfjörðunum. Þegar leið á kvöldið fórum við Birgir að skoða svæðið, hvar væri veiðilegast. Ég var staddur á hóli sem var kallaður Kristján níundi, tilbúinn að hefja veiðar. Það var orðið dimmt og þokan varð enn svartari en áður. Og þá fór að lóða. Hvernig getur maður treyst því að fiskur sem lóðar á milli klukkan níu og tíu að kvöldi sé þarna enn til staðar á miðnætti? Og trollið fór í hafið. Við á Bjarti toguðum ekki lengi í fyrstu tilraun, lentum í festu og tókum trollið inn. En svo fór það út aftur og þá náði ég að toga í friði, fékk í það skiptið um tíu tonn. Ég vissi að Birgir gerði þetta líka, og eflaust einhverjir aðrir. Þegar Tryggvi kallaði í talstöðina: „Ókei, nú má byrja,“ vorum við búnir að ná okkur í góðan slatta af fiski. Það var jú þoka.

Stríðsástand á miðunum

Árið 1975 var ég svo með Bjart á togveiðum fyrir austan landið. Það var mikið af breskum togurum, herskipum og dráttarbátum á miðunum. Við vorum að fiska suður á Papagrunni, fimm eða sex skip, Austfjarðaskipin, þangað höfðum við þvælst af Breiðdalsgrunni undan ágangi Bretanna, og þeir voru allt í kringum okkur. Við vorum orðnir ansi þreyttir á Bretunum, við máttum hvergi fá fisk, þá voru þeir komnir. Svo komu herskipin með þeim og leyfðu þeim að gera allan fjandann, þeir virtu engar siglingareglur og gerðu bara það sem þeimsýndist. Við vorum satt best að segja orðnir frekar pirraðir á þessu.

Svo gerist það að einn þeirra togar í veg fyrir mig, rétt fyrir framan mig. Það var ljóst að ég þurfti að stoppa ef trollin áttu ekki að flækjast saman. Ég er í talstöðinni og segi við félagana á skipunum í kring: „Á ég ekki bara að keyra og láta það gerast sem gerist?“ „Jú, endilega gerðu það, maður,“ sögðu þeir. Þarna voru þeir Birgir Sigurðsson, Ísleifur Gíslason og fleiri, þeir létu heyra til sín, ekki spurning, bara láta vaða á hann. Svo gerði ég það. Hann kom frá bakborða og togaði í veg fyrir mig svo að ég átti réttinn. Hann var svo nálægt mér að þaðvar töluverð hætta á að við lentum saman. Svo vorum við tilbúnir að hífa þegar trollin festast hvort í öðru. Við vorum með öflugt spil en þeir voru með eitthvert lakara, þannig að þeir réðu ekkert við okkur. Bjartur dró þetta allt saman. Þeir slógu úr og ætluðu að fara að hífa og það gekk eitthvað illa sem vonlegt var. Þegar vírarnir hjá þeim losnuðu úr blökkinni lentu þeir þvert fyrir aftan okkur og ég setti á fulla ferð áfram og dró þá á eftir okkur. Við vorum þetta á einnar, tveggja mílna ferð, með allt aftan í okkur, bæði okkar troll og þeirra, og Tjallann, þversum. Trollið var nú eiginlega komið í skutinn hjá okkur, hlerarnir nánast komnir upp. Ég hélt bara mínu striki og ætlaði að fara með þá inn fyrir fjórar mílurnar, það var ekki nema ein eða ein og hálf míla í hana, þannig að ég setti bara stýrið fast og hélt áfram. Svo endaði þetta með því að íslenska varðskipið kallaði í mig. Bjarni Helgason var þá skipherra þar og hann segir mér að ég verði að stoppa og greiða þetta í sundur. Ég sagðist bara ekki þora það, því að ég vissi ekki neitt hvað Tjallinn myndi gera ef við hættum okkur út á dekk, þetta væri of hættulegt til að fara að eiga við það. Bjarni skammaði mig eins og hund og sagði mér að ég yrði að stoppa en ég þverskaðist við og sagði að það væri bara ekki hægt og hélt áfram með trollið og allt saman aftan í og stefndi ótrauður að fjögurra mílna línunni. Það var ekki mikið mál að draga trollið en það var erfiðara að vera með togara þversum aftan í skipinu.

Það endaði með því að Bjarni datt ofan á snilldarlausn og hann samdi við breska sjóherinn þarna í gegnum talstöðina. Samningurinn gekk út á það að ef ég myndi stoppa til að greiða þetta í sundur, þá myndi hann setja tvo menn um borð í Tjallann til öryggis á meðan. Svo settu þeir út léttabát og þarna voru tvö bresk herskip og tveir eða þrír dráttarbátar. Skipin voru búin að raða sér í kringum okkur svo að ég varð eiginlega að stoppa. Varðskipið setti út léttabát og tveir eða þrír varðskipsmenn fóru um borð í þennan Tjalla.

Það var ekki oft sem varðskipsmenn fengu að fara í friði um borð í breskan togara á þessum tíma, en þetta var nú heiðursmannasamkomulag milli þeirra og þeir pössuðu að ekki yrði híft meðan verið var að greiða þetta í sundur. Svo greiddum við úr þessu, það var fljótlegt. Það var hægt að hífa þetta allt upp á dekk og lása því í sundur. Trollið þeirra var fast í hlera hjá okkur, ekki flækt við okkar troll, þannig að þetta var alls ekki flókið.

Ég held að eftir þetta hafi Tjallarnir hugsað sig aðeins um áður en þeir brutu reglurnar eins og þeir gerðu þarna. Í þetta sinn þverbrutu þeir siglingareglur sem þeir hefðu auðvitað ekki gert nema af því að það var stríðsástand á miðunum.

Ókennilegur kapall á botninum

Um sumarið þetta sama ár vorum við að toga á Bjarti milli Eystra- og Vestrahorns, tíu til tólf mílur frá landi. Um nóttina, meðan ég var í koju, festi stýrimaðurinn trollið. Það var alveg rígfast, losnar svo smátt og smátt, þó voru einhver þyngsli á þessu umfram það venjulega og þegar hann er að fá hlerana í gálga kemur í ljós að það er sver kapall vafinn utan um brakketið á öðrum hleranum. Hann var úr deigu efni og það var komin einhver kappmella á þetta. Þeir ná sér í slípirokk og skera á kapalinn öðrum megin. Það neistaði eitthvað í þessu þegar þeir voru að ná því í sundur, en strengurinn losnaði ekki frá. Þá tóku þeir það til bragðs að kútta á kapalinn hinum megin við hlerabrakketin. Strákarnir héldu eftir litlum bút og töldu sig heppna að vera lausir við þetta.

Ég tók bútinn sem þeir skáru úr og hafði samband við Landhelgisgæsluna. Þeir urðu alvarlega reiðir út af því að við skyldum kútta kapalinn, sögðu að við hefðum átt að láta þá vita. Ég sagðist bara ekkert hafa vitað hvað þetta væri, en auðvitað vissi ég það. Við vorum út af Stokksnesi og þetta var gamall njósnakapall, og svo kom náttúrlega í ljós þarna hvernig hann lá. Hann lá út frá Stokksnesinu og út í landgrunnsbrúnina, þaðan vestur fyrir Reykjanes og þar í land. Þetta var auðvitað hlustunarbúnaður, og á þessu voru magnarar og slíkt til að heyra í kafbátum og auðvitað til að verjast njósnum líka.

Hörður Frímannsson, verkfræðingur hjá sjónvarpinu, fékk veður af þessu og hringdi í mig til að spyrja út í þetta og ég sagði honum að ég ætti bút úr kaplinum. Hann bað mig í guðanna bænum að senda hann suður og ég gerði það og var svo vitlaus að taka ekki smábút til að halda eftir, ég sendi honum allan bútinn. Það kom svo mynd af honum í einhverjum fréttaskýringaþætti í sjónvarpinu um kvöldið. Þetta var kapall sem ekki var á almannavitorði að væri þarna. Það gengu um þetta alls konar sögur en ekki vitneskja. Þetta var litið óhýrum augum af ákveðnum aðilum hér, sem voru á móti hersetunni og vildu ekkert með herinn hafa.

Um þrem vikum seinna vorum við á keyrslu á svipuðum slóðum. Þá var komið þangað torkennilegt skip, grátt að lit, stórt, áreiðanlega þrjú- til fimmþúsund tonn. Það er eitthvað að dóla þarna og þegar við nálgumst það þá röðuðu borðalagðir offiserar sér út á brúarvænginn, allir með sjónauka. Aftan í skipinu var einhver kapall, strengur, og þá vissi ég auðvitað hvað var að gerast. Það var komið viðgerðaskip. Ég gerði það af prakkaraskap að setja trollið út, það var bara á kafi. Svo þóttist ég byrja að trolla þarna, ég vissi auðvitað nákvæmlega hvar kapallinn var. Þeir létu sem ekkert væri, hífðu bara inn þennan enda sem þeir voru með aftaní. Við dóluðum þarna aðeins, svo tókum við trollið upp og fórum á burt án þess að fleira yrði til tíðinda. En þetta var svolítið skemmtilegt, alveg tafarinnar virði.