Norðmenn neyta stöðugt minna af sjávarafurðum og verðhækkanir á fiskmeti hafa ekki síst ýtt undir þessa þróun síðustu misseri.

Samdráttur í innkaupum norskra neytenda á sjávarfangi hefur dregist saman um 1,5% frá því árið 2022, samkvæmt nýlegum tölum frá markaðsrannsóknafyrirtækinu Flesland Markedsinformationer. En þessi þróun hefur lengi verið til staðar í Noregi. Síðustu tíu ár hefur fiskneysla dregist saman um að meðaltali 1% á hverju ári. Neyslan í dag er 8% minni en hún var árið 2014.

3 kg minna en fyrir 10 árum

Norðmenn borða þremur kílógrömmum minna af fiski á ári en þeir gerðu fyrir tíu árum, þrátt fyrir ráðleggingar norskra heilbrigðisyfirvalda um að fiskur sé á borðum manna tvisvar til þrisvar í viku. Norska sjávarafurðaráðið segir að samdráttinn í fiskneyslu megi ekki síst rekja til umtalsverðra verðhækkana á fiskmeti. Á síðasta ári seldust sjávarafurðir fyrir 12,7 milljarða NOK á norskum smásölumarkaði, 163,4 milljarða ÍSK. Þetta er nærri 8% hærri upphæð en norskir neytendur greiddu fyrir sjávarafurðir 2022 og skýrist af meðaltalsverðhækkunum upp á 9,3%. Ekkert fiskmeti hefur hækkað jafn mikið í verði í Noregi og laxaflök eða um 42% frá árinu 2019. Verð á frosnum fiski hefur hækkað á sama tíma um 30%. Fiskur og skelfiskur er um 19% af því próteini sem norskir neytendur kaupa í verslunum.

Fæstir borða fisk tvisvar í viku

Ekki hefur síður dregið úr fiskneyslu á Íslandi. Í erindi sem Kolbrún Sveinsdóttir, sérfræðingur hjá Matís, flutti á Sjávarútvegsráðstefnunni 2023, kom fram að samkvæmt nýjustu könnunum borði fæstir Íslendingar fisk tvisvar í viku og sérstaka athygli veki að fiskneysla ungmenna er lítil. Einnig borði konur áberandi minna af fiski en karlar. Mælt sé með því að aðalmáltíð dagsins tvisvar til þrisvar í viku sé fiskur í samræmi við ráðleggingar heilbrigðisyfirvalda.