Jón Pétursson, rannsóknarstjóri siglingasviðs hjá Rannsóknarnefnd samgönguslysa, segir rannsóknir vera misjafnlega viðamiklar: „Fyrsta spurningin er hvort hægt sé að læra af slysinu? En margir aðrir þættir hafa áhrif á rannsóknir".“

Vel hefur gengið að koma í veg fyrir banaslys á sjó síðustu árin, en önnur slys og óhöpp af ýmsu tagi eiga sér enn stað. Að lokinni rannsókn er gefið út nefndarálit eða ábending, og stundum komið með tillögur í öryggisátt. Yfirleitt séu það tillögur um breytingu á regluverki, en Jón leggur áherslu á að nefndin hefur ekki það hlutverk að fella dóma, skipta sök eða ábyrgð.

„Aðalhlutverk okkar og tilgangur rannsóknanna er fyrst og fremst að læra af hlutunum og koma í veg fyrir að sams konar slys endurtaki sig. Þannig að það hefur til dæmis ekkert upp á sig að rannsaka sams konar slys oft. Við viljum alltaf eiga í góðu samstarfi við sjómenn og útgerðarmenn og hagaðila.“

Mikilvægasta verkefnið núna segir hann snúast um að bæta tilkynningar, tryggja að öll slys séu tilkynnt til nefndarinnar.

„Okkur grunar að við fáum ekki öll slys tilkynnt.“

Frumkvæði sjómanna

Annað er að miserfitt hefur reynst að ná fram þeim breytingum sem gera þarf til að bæta öryggi.

„Yfirleitt hefur það verið þannig að auðveldast er að laga hluti er snúa að sjómönnum sjálfum. Svo er kannski erfiðara að breyta öryggismenningu fyrirtækja, en erfiðast er alltaf þegar þarf að laga regluverk. Það hefur líka sýnt sig, og það höfum við séð í okkar skoðunum, hvað sjómennirnir eru sjálfir góðir í að gera betrumbætur til þess að auka eigið öryggi. Það eru ótal dæmi um að frumkvæðið komi frá sjómönnunum sjálfur. En þeir þurfa auðvitað að fá stuðning. Í sumum tilvikum er það ekki annað en þeir fái tvo lítra af málinu, til þess a merkja hættulega staði. Ég held samt að það hafi orðið mikil hugarfarsbreyting hjá útgerðunum varðandi öryggi.“

Sérstaða Íslands

„Það má alltaf gott bæta. En almennt má segja að menn eru nú bara að standa sig býsna vel, held ég,“ segir Jón en minnir á að „við hérna á Íslandi njótum sérstöðu. Það er horft til okkar.“

Hann upplifir það til dæmis á fundum með rannsakendum í Evrópu.

„Þeir eru yfirleitt ekkert að spá í slysum á fiskimönnum. Þeir eru ekkert að rannsaka þau, enda eru slys þar að aukast, og þar má nefna bæði Írland og Noreg. Þeir eru meira að velta fyrir sér risaflutningaskipum.“

Alþjóðlegt samstarf

Rannsóknarnefndin er raunar í alþjóðlegu samstarfi um rannsóknir er varða erlend skip hér við land.

„Við leitum til dæmis aðstoðar ef við förum með forræði rannsóknar yfir erlendu skipi, þá er það kannski í samráði við fánaríki viðkomandi skips. Og það er alveg til í dæminu að við séum beðnir af viðkomandi fánaríki um að sjá um rannsókn.“

Komum skemmtiferðarskipa hingað til lands hefur fjölgað mjög undanfarin ár, með hléi reyndar yfir covid-tímann, og því fylgir aukið álag hjá rannsóknarnefndinni.

„Við erum talsvert að kljást við slys á fólki í farþegaflutningum, en það verður að taka með í reikninginn að þeir sem eru að fara slíkar ferðir eru ekki atvinnumenn. Þetta eru farþegar og það er gríðarlegur fjöldi.“