„Það verða hundrað prósent einhvers konar dómsmál. Hvernig það verður og að hverjum það mun beinast á eftir að koma í ljós,“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, um þróun mála varðandi hvalveiðar sumarsins.

Eins og fram hefur komið setti Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra á veiðibann degi áður en Hvalur hf. hugðist hefja veiðar á langreyði í júní. Byggir bannið á því að veiðarnar eins og þær hafa verið stundaðar uppfylli ekki lagaskilyrði um velferð dýra.

Verkalýðsfélag Akraness hefur bæði sent matvælaráðuneytinu og Umboðsmanni Alþingis erindi vegna málsins fyrir hönd þeirra félagsmanna sem verða af ábatasamri vertíðarvinnu í sumar hjá Hvali. Vilhjálmur segir svör hafa borist frá hvorugum þessara aðila.

Reyni fyrir sér í september

Bannið gildir út ágúst. „Það kæmi mér ekkert á óvart ef þeir fá ekki að fara af stað núna þá láti þeir á það reyna í september,“ segir Vilhjálmur um stöðuna hjá Hvali.

Að sögn Vilhjálms hafa sumir úr Verkalýðsfélagi Akranes sem höfðu ráðið sig á vertíð til Hvals fundið sér annað starf. Einhverjum þeirra hafi verið boðið að vinna í dagvinnu í sumar hjá Hvali við að dytta að búnaði og skipunum.

„Sjálfsagt er fyrirtækið að tryggja sig ef það skyldi vera hægt að vinda ofan af þessu en það er himinn og haf milli dagvinnu og vertíðarvinnu,“ segir Vilhjálmur um þann mun sem sé tekjulega á þessu tvennu fyrir starfsmenn.

Enn skoðað að stefna Hvali hf.

Verkalýðsfélagið mun hugsanlega stefna Hvali eins og áður hefur komið fram hjá Fiskifréttum. „Það er kannski sú leið sem við þurfum að fara,“ segir Vilhjálmur. Það sé formlega leiðin.

„Það er vegna þess að ráðningin er í gegn um Hval og ekki í gegn um stjórnvöld. En ef við myndum ekki getað náð neinu fram gagnvart fyrirtækinu þá myndum við að sjálfsögðu skoða það gagnvart stjórnvöldum líka,“ segir Vilhjálmur. Hvalur muni fyrir sitt leyti einnig örugglega leita réttar síns gagnvart stjórnvöldum.

Gagnrýnir samstarfsflokka áfram

Ekki er ástæða til bjartsýni varðandi það að veiðibanninu verði aflétt að mati Vilhjálms. „Mér sýnist að þessi gerræðislega, pólitíska ákvörðun matvælaráðherra verði ekkert haggað á meðan stjórnskipan landsins er með þessum hætti,“ segir hann og endurtekur gagnrýni á samstarfsaðila Vinstri grænna, flokks matvælaráðherra, í ríkisstjórn.

„Ég segi það enn og aftur að þeir skulu gera sér grein fyrir því, bæði Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn, að þetta er náttúrlega gert í umboði þeirra. Þeir geta sett niður hælana en þeir gera það ekki. Sem kemur mér verulega á óvart í svona stóru og miklu máli,“ segir formaður Verkalýðsfélags Akraness.