Aðfaranótt sunnudagsins 26. júní dró til tíðinda. Ólafur, 16 ára sonur Ketils útvegsbónda Ketilssonar í Kotvogi, hreppstjóra og Dannebrogsmanns, sagði svo frá: „Um klukkan fimm um morguninn var barið á baðstofugluggann í Kotvogi og kallað að skip væri að reka á land. Allir karlmennirnir þustu út að glugganum og sáu stærra skip en þeir höfðu áður augum litið.”

Þannig hefst frásögn af strandi þrímastra barkskipsins Jamestown úti fyrir Höfnum á Reykjanesi sumarið 1881. Halldór Svavarsson hefur í mörg ár viðað að sér fróðleik um strandið og síðastliðin fjögur ár hefur hann setið við skriftir. Útkoman er Strand Jamestowns úti fyrir Höfnum 1881, glæsilega umbrotin, skrifuð og myndskreytt frásögn af þessum atburði.

Hver er höfundur bókarinnar og hvað rekur hann áfram til að segja þessa mögnuðu sögu nú, 140 árum eftir atburðinn? Í bókinni er sagt frá smíði skipsins, hvers vegna það var mannlaust þegar það strandaði, hvaðan það kom, hver farmurinn var og hvernig hann og skipið sjálft var nýtt af timbursnauðum Íslendingum 1881 þegar mannfjöldi hér var í kringum 70.000. Og margt fleira til. Bókin er í senn mögnuð lesning og bókverk af besta tagi.


Annar tveggja seglasaumara

Halldór Svavarsson er fæddur í Vestmannaeyjum 1942. Faðir hans var Svavar Antoníusson útgerðarmaður í Vestmannaeyjum. Halldór ólst þar upp. Var gellupeyi og fór og sjó eins og aðrir og er annar tveggja Íslendinga á lífi sem eru seglasaumarar að mennt. Hann starfaði við fagið um skeið og náði þar í skottið á eldri mönnum sem kunnu handverkið í segla- og reiðagerð. Seglskútur hafa líka heillað Halldór frá því hann man eftir sér. Hann segir sjálfur að spurningunni verði seint svarað; hvort komi á undan eggið eða hænan.

Sagt var að Jamestown hefði verið stærsta skip sem hefði sést á Íslandsströndum. Hægt var að sjá á snjáðum stöfum heiti þess og að heimahöfnin var Boston, Massachusetts. Við Hafnir var skipið strandgóss og venjulega áttu landeigendur það sem rak á þeirra fjörur. En þetta var langt umfram það sem einn bóndi réði við og kom því landshöfðinginn til skjalanna. Þegar hægt var að komast út í Jamestown þremur dögum eftir að það hafði strandað á svonefndum Hestakletti kom í ljós að það var hlaðið timbri.

Timbur fyrir járnbrautir í Englandi

Svo var vandað til þessara stóru skipa á þessum tíma að þeim var ekki líkt við önnur mannanna verk nema þá helst dómkirkjur. Þau voru því kölluð dómkirkjur hafsins. En þótt Jamestown hefði á þessum tíma, eftir heimildum, verið næst stærsta skip veraldar á þessum tíma, tæpir 110 metrar á lengd, stóðst það ekki áraun veðurofsans á Norður-Atlantshafi. Auk timbursins var stór hluti farmsins silfurgrýti úr námum í Maine ríki í Bandaríkjunum sem til stóð að flytja Liverpool borgar og bræða. Þangað átti timbrið líka að fara og nýtast sem undirstöður undir járnbrautateina um gervallt England. Um þessar mundir stóð yfir járnbrautarvæðing á Englandi.

  • Skipið The Three Brothers, var svipað að stærð og Jamestown og gefur góða hugmynd um útlit skipsins. Aðsend mynd .

Halldór segir að ekki hafi verið kunnátta í Bandaríkjunum á þessum tíma til að bræða silfurgrýti. Því  hafði sennilega verið komið fyrir í kössum á þilfari Jamestown en auk þess var það uppistaðan í ballest skipsins. Halldór vill benda á að silfurgrýti er þrisvar til fjórum sinnum eðlisþyngd blágrýtis. Og þetta skiptir máli þegar hugað er að örlögum Jamestown.

Eftir því sem Halldór komst að var ballest skipsins verðmætari en skipið sjálft og allur annar farmur þess til samans.

„Það komu til Hafnar fulltrúar Lloyds tryggingafélagsins sem sýndu skipinu lítinn áhuga en sjónir þeirra beindust nær eingöngu að ballestinni. Eftir um tveggja mánaða barning í fjörunni brotnaði skipið og silfurgrýtið dreifðist yfir stórt svæði. Í mörg ár gengu menn fjörur til þess að leita að silfri,“ segir Halldór.

Um 300 tonn af silfurgrýti

Eftir talsverða eftirgrennslan kom í ljós að Jamestown hafði lagt upp vorið 1881 frá litlum bæ nálægt Boston á leið til Evrópu með timbur, Oregon pine, sem er furutegund sem vex í samnefndu ríki í Bandaríkjunum. Hvert tré er 50-65 metrar hátt og um tveir metrar í þvermál. Það er grjóthart en telst samt ekki til harðviðar. Timbrið var sem fyrr segir, ætlað í bjálka undir járnbrautarteina í Englandi. Halldór telur sennilegast að silfurgrýti hafi verið í kössum á þilfarinu á báðum síðum auk þess sem ballestin var silfurgrýti. Stóð til að bræða það í Englandi og flytja til baka kol til heimahafnar. Líklegt er að silfurgrýtið í skipinu hafi vegið um 300 tonn.

  • Guli punkturinn sýnir hvaðan Jamestown hélt úr höfn. Rauði punkturinn sýnir hvar áhöfninni var bjargað. Blái punkturinn sýnir hvar áhöfn Titania sá skipið á reki og sá græni hvar skipið strandaði. Aðsend mynd

Eftir um vikusiglingu frá Boston var Jamestown um 600 sjómílur vestur af Írlandi og gerði þá aftakaveður. Þyngdarpunktur skipsins var hár vegna silfurgrýtisins á þilfarinu. Illa gekk því að hafa stjórn á skipinu í veðurofsanum.

„Skipstjórinn lét fyrst höggva niður aftasta mastrið. Það dugði ekki til. Ákvað hann þá að henda silfurgrýtinu fyrir borð. Í framhaldinu er líklegt kössunum hafi verið hent útbyrðis líka. Ég fæ atburðarásina ekki til þess að ganga upp nema með því að geta mér þess til að kassarnir hafi hafnað á stýrið. Stýrið skaddast og þeir missa það. Í sex vikur hélt áhöfnin floti á stjórnlausu skipinu í brjáluðu veðri flesta daga. Loks verður á leið þeirra skip sem er á leið til Glasgow sem bjargar áhöfninni, alls 25 manns, og þar að auki konu skipstjórans og barni þeirra. Farið var með skipbrotsmenn til Skotlands og hlúð að þeim þar. Fólkið hafði verið matarlaust undir lokin því allar lúgur höfðu brotnað og matur skemmst.“

Fjölmörg hús byggð á Íslandi

Yfirgefinn Jamestown barst svo fyrir veðri og vindum í hávaða sunnanáttum. Skipið rak svo á land við svonefndan Hestaklett um bjargræðistímann 1881. Halldór segir að fjölmörg hús, skemmur og fjós á Íslandi hafi verið byggð úr timbrinu sem var farmur Jamestown og mörg þeirra eru uppistandandi ennþá. Alls voru níu hús reist í Höfnum þótt fátt sé eftir af þeim núna. Gólfið í Hvalneskirkju er úr gæðavið úr Jamestown. Það eru hús í Sandgerði, Garði, Vatnleysuströnd, Hafnarfirði og Gröndalshús í Reykjavík byggð úr þessu timbri. Á þessum tíma er Ísland timburlaust land svo strandið var sannarlega hvalreki sem nýttist líka í brúarsmíði og fleira. Timbrið var sennilega líka mun betra en hefði fengist hjá kaupmönnum.

Ýmsir aðrir munir úr strandinu hafa varðveist eins og tvö akkeri sem hefur verið komið fyrir á grasbala við Kirkjuvogskirkju í Höfnum og fyrir framan húsið Efra-Sandgerði sem smíðað var úr viði frá Jamestown. Akkeriskeðja sem fór til Vestmannaeyja og var notuð í ból fyrir báta í Friðarhöfn. Halldór segir að skipið sjálft hafi klofnað í sundur á strandstað á tveimur mánuðum. Tveir menn keyptu skipsflakið og var annar þeirra Ketill Ketilsson hreppstjóri í Kotvogi á Höfnum. Timbrið úr skipinu var fullnýtt til að byggja hús og skemmur á Íslandi.

Ritverk Halldórs er á 166 blaðsíðum og bókina prýðir 151 ljósmynd.

  • Seglbúnaður klipperanna var háþróaður. Teikningin sýnir skip með 37 seglum. Nokkurn veginn svona hefur Jamestown litð út seglum þanið. Aðsend mynd.