„Þetta hefur gengið svona upp og ofan. Það er lítið af fiski í Smugunni,“ segir Runólfur Runólfsson, skipstjóri á Bjarna Ólafssyni AK. Íslensku skipin hafa verið þar á makrílveiðum undanfarið, eins og fleiri íslensk uppsjávarskip.

„Þetta er svo kaldur sjór, það er bara vetur í hafinu og aldrei almennilegt veður. Það er lítið sem sést, en það virðist aðallega vera á kvöldin og eldsnemma á morgnana sem þetta er að gera sig eitthvað.“

Spurður hvort fiskurinn sé samt þokkalegur, neitar Ragnar því.

„Nei, þetta er mjúkur fiskur og mikil áta.“

Hann á ekki von að ástandið skáni þegar líður á vertíðina.

„Þetta fer ekkert í gang. Þetta verður bara svona jafnt. Maður vonar samt, en þetta er rosalega erfitt. Það er búið að veiða þennan stofn niður. Það er bara þannig.“

Á síðasta ári var einnig dauft yfir makrílveiðunum framan af en nokkuð rættist úr undir lok júlímánaðar og vertíðin í heild var þokkaleg. Heildarafli ársins varð 124 þúsund tonn, en í ár hafa verið gefnar út veiðiheimildir upp á um 120 þúsund tonn.

Samstarf um löndun

Eins og undanfarin ár hafa nokkur skip haft með sér samstarf um veiðarnar í Smugunni. Alls eru það fimm skip sem landa hjá Síldarvinnslunni sem skipta með sér verkum þannig að eitt skipið tekur til sín aflann og fer með hann í land meðan hin halda áfram veiðum.

„Við dælum þá bara beint úr pokanum,“ segir Runólfur. „Þetta samstarf virkar núna af því að þetta er lítill fiskur. Þá er hægt að hafa skipin skemur úti til hagsbóta fyrir alla.“

Runólfur_Runólfsson_-_skipstjóri_-_Bjarni_Ólafsson_-_ÞB_1.JPG
Runólfur_Runólfsson_-_skipstjóri_-_Bjarni_Ólafsson_-_ÞB_1.JPG

Skipin fimm eru Börkur NK, Beitir NK, Barði NK, Bjarni Ólafsson AK og Vilhelm Þorsteinsson EA. Þegar eitt skipanna siglir með aflann í land tekur næsta skip að sér að ná í aflann frá hinum, og þannig gengur röðin koll af kolli.

„Við erum síðastir í röðinni núna,“ sagði Runólfur þegar Fiskifréttir heyrðu í honum fyrr í vikunni. „Núna eru Vilhelm og Beitir á útleið. Þeir eru ennþá í íslenskum sjó. Við og Börkur erum hérna úti núna, og Barði að landa.“

Þessar vikurnar stendur yfir hinn árlegi uppsjávarleiðangur þar sem makríls er leitað í Norðaustur-Atlantshafi. Rannsóknaskipið Árni Friðriksson lét úr höfn 4. júlí og stendur leiðangurinn yfir í 19 daga, þannig að honum ætti að vera lokið núna um helgina.

Auk Íslendinga taka skip frá Noregi, Færeyjum, Grænlandi og Danmörku þátt í leiðangrinum.

Lítið í Smugunni

Norska Hafrannsóknastofnunin hefur vikulega birt fréttir af framvindu sinna skipa, Eros og Vendla, en þau hafa farið yfir stórt svæði í Noregshafi. Þau hafa fengið makríl víða á þessu svæði, mest austast á svæðinu en stærsti makríllinn er vestast á svæðinu. Engar makríltorfur hafi hins vegar sést í Smugunni, að því er norska Fiskeribladet hefur eftir Mariu Tenningen, öðrum tveggja leiðangusstjóra norska leiðangursins.

Tenningen segir þó erfitt að draga neinar ályktanir af því strax, enda leiðangrinum ekki lokið: „Það er erfitt að sjá hvort nú sé meira eða minna um makríl en á fyrri árum.“

Undanfarin ár hefur makríllinn haldið sig fjarri íslenskri lögsögu, þannig að íslensku skipin hafa þurft að fara í Smuguna til að ná honum.

Strandríkin hafa ekki getað komið sér saman um skiptingu veiðiheimildanna, með þeim afleiðingum að ár eftir ár hefur verið veitt langt umfram ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins.