„Mér finnst nú frekar dauft hljóð í körlunum,“ segir Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda. „Það er minni stemning, sem helgast dálítið af því að það er ekki verið að bjóða verð sem menn eru sáttir við. Allur kostnaður hefur aukist og þess vegna þurfa menn hærra verð. Þá er tími til kominn að setja vöruna á hærri stall, sem gerist ekki öðru vísi en verð hækki“

Hafrannsóknastofnun hefur í dag gefið út ráðgjöf um grásleppuveiðar, og ráðleggur að veiðar á grásleppu fiskveiðiárið 2022/2023 verði ekki meiri en 4.411 tonn. Er það um 37% lækkun milli ára.

„Lágmarksfjöldi veiðidaga er 25, en endanlegur fjöldi ákveðin útfrá ráðgjöfinni, hvernig veiðin fer af stað og markaðsmálum“, sagði Örn.

Strax á fyrsta degi höfðu um 20 grásleppusjómenn virkjað réttindi sín, sem Örn segir svipaðan fjölda og í fyrra. Samkvæmt Fiskistofu voru nokkrir búnir að landa fyrsta aflanum strax á þriðjudag.

Áhyggjur af þorski

Nú er það áhyggjuefni hversu erfiðlega hefur gengið að fá þorsk leigðan. Fjöldi grásleppumanna hefur engar veiðiheimildir í þorski og lítið sem ekkert hefur gengið að fá leigt. Þorskur ekki í boði, þannig að þeir fara strax á rautt ef þeir eru svo óheppnir að fá þorsk í netin.

Yfirleitt hefur þorskurinn verið fyrirferðamestur framan af vertíðinni, en Örn segir ekkert hægt að treysta á það.

„Sumir hafa meira að segja verið að fá þorsk þegar þeir eru að taka upp. Minni líkur á að hann komi í netin þegar lagt er grunnt, en þá er að sama skapi hættara við að lítið veiðist af grásleppu. Sökum kuldans sem verið hefur gæti grásleppan verið seinni á ferðinni. Annars eru grásleppuveiðar þannig að stundum fylgir mikill þorskur með en á öðrum tíma sést hann varla. Nú er allt fullt af þorski og því hætt við að vandamálið – innan gæsalappa – verði meira en áður þegar menn fengu vart í soðið við grásleppuveiðarnar. Áður fyrr var þetta látið afskiptalaust, menn lönduðu sínum þorski, söltuðu eða höfðu hann í matinn. Nú er umhverfið gjörbreytt, þú verður helst að hafa einhvern þorskkvóta á bátnum því þú getur ekkert stólað á það að þú getir leigt á móti.“

Landssambandið segir að þennan vanda megi minnka með því að breyta reglum um VS-afla í grásleppuveiðum þannig að hann fari úr 5% upp í 25%.

Spá í aðra markaði

Fyrir nokkrum árum gátu grásleppusjómenn selt hveljuna til Kína en Kínverjar lokuðu á þau viðskipti í covid. Örn segir að alltaf sé verið að reyna að opna þann markað aftur.

„Stundum berast góðar fréttir, en það er búið að vera hálfgert limbó í kringum þetta. Auðvitað vonum við að það takist, og það gæti haft áhrif á verðið. Síðan er alltaf verið að selja fersk og frosin hrogn á erlenda markaði sem hefur aukist með ári hverju. Þannig að þetta er svona aðeins upp á við. Þá eru menn alltaf að spá í aðra markaði, og það er aldrei að vita nema einhver glufa finnist. Þetta er það lítið magn að við þurfum ekki nema einn svona meðalstóran úti í heimi. Það er bara að finna þennan rétta.“