Bandarískir vísindamenn hafa kortlagt dauðasvæði í Mexíkóflóa, hafsvæði með lágu súrefnisinnihaldi, og telst það vera 13.085 ferkílómetrar að stærð, sem svipar til stærðar Connecticut ríkis í Bandaríkjunum.
Þetta þykir renna stoðum undir tilgátur um að sú þróun haldi áfram að næringarefni sem berist frá Mississippi ánni hafi áhrif á strandveiðar og lífríkið í Mexíkóflóa.
Stærsta dauðasvæðið í Mexíkóflóa frá því mælingar hófust uppgötvaðist árið 2002 og náði það yfir tæplega 22.000 ferkílómetra svæði.
Meðalstærð dauðasvæðisins í flóanum síðastliðin fimm ár er um 14.200 ferkílómetrar.
Dauðasvæði verða til þar sem næringarríkur úrgangur frá landbúnaði og öðrum iðnaði renna til sjávar. Næringarefnin örva þörungavöxt sem gengur á súrefnisforðann sem er nauðsynlegur til að viðhalda lífríkinu í sjónum.
Fjöldi dauðasvæða í heimsins höfum hefur aukist síðustu áratugi og teljast nú vera yfir 550 talsins. Dauðasvæðið úti fyrir strönd Louisiana er annað stærsta svæðið sem hefur orðið fyrir áhrifum af þessu tagi af mannavöldum. Það nær frá ósum Mississippi árinnar allt í vestur úti fyrir ströndum Texas.