Þúsundum dauðra fiska skolaði á land við Rodrigo de Freitas vatnið við Rio de Janeiro í Brasilíu í síðustu viku. Fyrirbærið vakti athygli ferðamanna í borginni.
Lífrænn massi fauk í vatnið í gríðarlegu hvassviðri og tók til sín mikið súrefni þegar hann rotnaði. Súrefnið í vatninu varð því hættulega lítið.
Ástandið leiddi til þess að fjöldi svokallaðra augnsílda drapst en síldin kemur í vatnið á þessum tima til að hrygna. Unnið er að því að fjarlægja rotnandi síldina og voru 12 tonn tekin einn daginn. Vatnið er tengt Atlantshafinu og innstreymi sjávar hefur nú aukið súrefni þess á ný.
Fyrirhugað er að halda róðrarkeppni á vatninu á Olympíuleikunum 2016 þannig að menn vonast til að atburður eins og þessi endurtaki sig ekki.