Líffræðingar við háskólann í Plymouth á Englandi og samtökin WorldFish hafa sent frá sér skýrslu þar sem alvarlega er varað við ört hnignandi ástandi fiskistofna í Ermarsundi. Þar er byggt á gögnum Alþjóðahafrannsóknaráðsins og sagt að verið sé að veiða niður fæðukeðjuna í hafinu með því að ganga of nærri helstu ránfiskunum.
Þetta hafi leitt til þess að fiskimennirnir verði í síauknum mæli að láta sér nægja að skrapa „botninn í tunnunni“ til þess að ná auknum afla af skelfiski. Stofnar þorsks og ýsu séu á hverfanda hveli og tegund eins og skata, sem áður fannst í miklu magni við suðurströnd Englands, sé nú næstum horfin. Aðrar tegundir eins og langa og lýsingur séu einnig í hættu.
Englendingar og Frakkar veiða samtals um 150.000 tonn af fiski í Ermarsundi árlega samanborið við 50.000 tonn árið 1950 þegar mun fleiri skip voru á veiðum.
Skorað er á yfirvöld að sporna við þessari háskalegu þróun með því að friða fleiri svæði svo fiskstofnarnir nái að rétta við.
Frá þessu er skýrt á sjávarútvegsvefnum FISHupdate.com