Danskir fisksölumenn þurfa nú að kunna skil á latínu samkvæmt nýjum reglum ESB og það fellur ekki í góðan jarðveg hjá þeim. Þeir segja það vera enn eina vitleysuna í regluverki ESB, að því er fram kemur á vefnum business.dk
Nýju reglurnar kveða á um það að danskir fisksölumenn skuli merkja fisk sinn með latneskum nöfnum. Þannig sé tryggt að kaupandi fisksins hafi ávallt rétt tegundarheiti til að forðast rugling. Framvegis má til dæmis ekki selja þorsk án þess að latneska heitið Gadus morhua fylgi með. Matvælaeftirlitið danska hefur tilkynnt fisksölumönnum um þessar reglur og jafnframt áminnt þá um það að verði ekki farið eftir reglum verði beitt sektum.
Samtök danskra fisksölumanna mótmæla reglunum harðlega. Varaformaður samtakanna segist ekki skilja hverjum þær eigi að þjóna. Þetta sé aðeins enn eitt dæmið um skrifræðið. ,,Ég hef starfað við fisksölu í 12 ár og ekki einn einasti kaupandi hefur beðið um latneskt heiti á fiskum. Stundum hugsar maður sem svo að fjöldi manns sitji einhvers staðar og hafi ekker betra að gera en að upphugsa nýjar reglur sem annað fólk á svo að vinna eftir,“ segir hann.
Talsmaður Matvælaeftirlitsins segir hins vegar að þessar reglur komi fiskkaupendum til góða. Latnesku nöfnin komi sér vel til dæmis til að aðgreina ýmsar kolategundir sem eru á markaðinum.