Markmið Danska sjávarklasans er að hlúa að og örva frumkvöðlastarf og nýsköpun í sjávarútvegi í Danmörku og nýta reynslu og hugmyndafræði Íslenska sjávarklasans í þeirri vinnu.

Þetta kemur fram í tilkynningu þar sem segir jafnframt:

„Við hefjumst nú handa við að koma Danska sjávarklasanum á legg. Við vonum að klasinn geti haft jákvæð áhrif á allan sjávariðnaðinn í Danmörku, bæði í sjávarútvegi og fiskeldi. Auk þess eru örar breytingar að eiga sér stað, breytingar sem krefjast nýrrar hugsunar um betri nýtingu auðlinda og að nýta hliðarafurðir á skynsaman hátt,“ segir Linn Indrestrand, yfirmaður þjónustu- og flutningasviðs Hirtshalshafnar sem er ein stærsta höfn Danmerkur.

„Þetta nýja samstarf um stofnun Danska sjávarklasans getur stuðlað að auknu samstarfi um fullnýtingu sjávarafurða og nýsköpun bláa hagkerfinu og eflt samstarf á Norðurskautssvæðinu.
Þetta samstarf er mikilvægt skref fyrir Danmörku og dönsk fyrirtæki í þeirra viðleitni til að efla hringrásarhagkerfið í tengslum við bláa hagkerfið,“ segir Þór Sigfússon stofnandi Íslenska sjávarklasans.

„Tenging Danska sjávarklasans við Íslenska sjávarklasann opnar möguleika á að læra af reynslu og skiptast á þekkingu. Um leið opnast fyrir okkur tengingar við fleiri sjávarklasa í netverki Íslenska sjávarklasans. Við hlökkum til þessa samstarfs,” segir Karl Henrik Laursen, forstjóri the North Sea Science Park.