Danmörk er ekki meðal stærstu fiskveiðiþjóða heims því tuttugu og tvær þjóðir veiða meiri fisk en Danir. Danmörk er engu að síður fimmti stærsti útflytjandi sjávarafurða í heiminum. Skýringin á því er sú að danskar fiskvinnslur flytja inn megnið af því hráefni sínu til vinnslu margskonar sjávarafurða sem seldar eru víða um heim, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum.

Í heild nam útflutningur sjávarafurða tæpum 20 milljörðum DKK (um 427 milljörðum ISK) árið 2011. Það eru aðeins Kína, Noregur, Thailand og Víetnam sem flytja út meira af sjávarafurðum en Danmörk í verðmætum talið.

Árið 2011 lönduðu dönsk skip 168.966 tonnum af fiski til manneldisvinnslu og aflaverðmætið var rúmir 1,8 milljarðar DKK (um 39 milljarðar ISK).

Á sama tíma voru flutt inn 486 þúsund tonn af fiski til manneldisvinnslu að verðmæti 11 milljarður króna (238 milljarðar ISK).

Mest af hráefni sínu flytja Danir inn frá Grænlandi, bæði í tonnum talið og verðmætum. Á árinu 2011 flutt þeir inn 107 þúsund tonn frá Grænlandi að verðmæti 2,4 milljarðar DKK (52 milljarðar ISK). Noregur kemur þar á eftir með um 89 þúsund tonn og verðmætið var rúmir 2 milljarðar DKK (43 milljarðar ISK). Danir flytja mikið inn af eldislaxi frá Noregi en laxinn er reyktur og settur í neytendaumbúðir til útflutnings.

Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.