Alvarlegur súrefnisskortur hrjáir nú fiskimið við Fjón í Danmörku. Á einum stað í suðurhluta Litlabeltis er súrefnið að stærstum hluta uppurið. Í eyjahafinu suður af Fjóni er súrefnisinnihaldið svo lágt að fiskar hafa flúið svæðið.
Frá þessu var skýrt í danska sjónvarpinu. Umhverfisyfirvöld mældu súrefni sjávar um miðjan júlí. Í ljós kom að súrefnið hefur aldrei verið minna á þessum tíma frá því mælingar hófust árið 1989. Málið er litið alvarlegum augum og óttast er að súrenisskorturinn geti valdið miklu tjóni á lífríkinu verði ekki breyting á. Danska sjónvarpið segir að það eina sem geti bjargað sé kröftugur norðvestanvindur sem komi hreyfingu á sjóinn og þá geti menn og fiskar andað léttar.