Staðan er alvarleg en enginn þorir að vera með neinar vangaveltur á þessari stundu, segir Esben Sverdrup-Jensen talsmaður dönsku uppsjávarsamtakanna DPPO. Hann bendir á að um þriðjungur af afla Dana sé veiddur á breskum fiskimiðum og hvað uppsjávarfiskinn varði sé að minnsta kosti helmingur hans veiddur þar og sennilega meira í verðmætum talið.

„Enginn veit hvað Brexit þýðir,“ segir Sverdrup-Jensen á vefnum FiskerForum.com. „Í versta falli gæti þetta þýtt að breskum fiskimiðum yrði lokað fyrir erlendum skipum. Þá yrðu þau til dæmis útilokuð frá stærstum hluta sandsílaveiðanna.“ Hann telur slíka þróun mála ólíklega því það hefði í för með sér að Bretum yrði meinaður aðgangur að mörkuðum í Evrópusambandinu.

Sverdrup-Jensen segist hafa skilning á því að breskir fiskimenn hafi viljað ganga úr Evrópusambandinu og nefnir makrílsamningana sem gott dæmi um það hve einstök aðildarríki megi sín lítils þegar ESB geri alþjóðlega samninga fyrir þeirra hönd. „Okkur finnst ekki á okkur hlustað og okkar hagsmuna ekki gætt í slíkum samningum. Og svo var það eins og strá salti í sárið að leyfa Færeyingum að veiða makríl í lögsögu ESB. Svona hlutir magna upp óánægju með vinnubrögð ESB-kerfisins,“ sagði talsmaður DPPO.