„Við þurfum að fá góð gögn í hendur til að vita staðreyndir til að taka ákvarðanir út frá,“ segir Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir, sveitarstjóri Dalvíkurbyggðar um fyrirhugaða úttekt vegna viðvarandi hallareksturs hafna sveitarfélagsins.
Að sögn Eyrúnar, sem er sjálf hafnarstjóri með fram sveitarstjórastarfinu sem hún tók við sumarið 2022, hefur hallareksturinn verið viðvarandi síðustu ár. Sem dæmi hafi hallinn verið um 36 milljónir króna í fyrra.

Dalvíkurbyggð rekur þrjár hafnir; á Dalvík, á Árskógssandi og á Hauganesi.
„Þetta helgast líka fyrst og síðast af því að hafnirnar eru B-hluta fyrirtæki sem eiga að rekast á núlli og helst í plús. Við megum ekki borga með þeim út A-hlutanum. Það er í raun og veru ólöglegt,“ segir Eyrún nánar um ástæðu úttektarinnar sem byggðaráð samþykkti að fá KPMG til að gera á rekstri hafnarsjóðsins.
„Við vorum búin að gera smá greiningu innanhúss hjá okkur en viljum láta taka þetta alveg út frá öllum hliðum. Og fá tillögur um úrbætur – um hvað þarf að gera til þess að ná þessu á réttan kjöl,“ segir sveitarstjórinn.