Það er samdóma álit skipstjóra sem eru á loðnuveiðum að útlitið sé nokkuð gott í upphafi vertíðar. Fjölmörg skip er nú að veiða norðaustur af Langanesi.

„Við lögðum af stað í morgun og erum komnir með um 400-500 tonn. Þetta er nokkuð stór og fín loðna, lítil áta í henni þannig að hún hentar vel til manneldis," segir Ásgrímur Ingólfsson skipstjóri á Ásgrími Halldórssyni SF í samtali á vef LÍÚ en skipið var á landleið undir hádegi í dag. Hann sagði mikla umferð vera á miðunum.

Hjörvar Hjálmarsson skipstjóri á Beiti NK, sem einnig er staddur norðaustur af Langanesi, tekur í sama streng og segir útlitið í upphafi vertíðar vera nokkuð gott. „Loðnan er stór og fín. Það er um 32-39 stykki í kílói sem þykir bara mjög gott." Hjörvar segir að þeir hafi þegar veitt um 700 tonn en loðnan veiðist nær eingöngu í troll.