Baldvin Njálsson GK 400 er nýjasta viðbótin í fiskiskipaflota Íslendinga. Arnar Óskarsson skipstjóri, sem áður var á eldra skipi með sama nafni sem nú hefur verið selt til Rússlands, sigldi skipinu heim frá Argon skipasmíðastöðinni á Norður-Spáni ásamt áhöfn sinni. Hann líkir reynslunni við að fara af 31 árs gömlu skipi yfir á það nýja við það að skipta Fiat Panda út fyrir Audi e-tron.

Nýr Baldvin Njálsson GK kom til hafnar í Hafnarfirði í byrjun síðustu viku. Þar var Arnar staddur að leggja síðustu hönd á undirbúning fyrir að minnsta kosti tvo prufutúra með sitt hvorri áhöfninni. Skipið fór í veiðarfæraprófanir úti á Spáni áður en haldið var heim en verið var að taka kost og umbúðir í skipið auk þess sem íslenskir  tæknimenn voru að fínstilla hluti.

„ Við erum bara að gera okkur klára og fara til veiða á morgun,” sagði Arnar þegar rætt var við hann fyrir  helgi. Til stendur að fara í tvo 6-7 daga prufuveiðitúra með sitt hvorri áhöfninni til að menn kynnist skipinu og öðrum vinnubrögðum. Svo verður keyrt á veiðar á fullum afköstum strax eftir áramót.”

Arnar sigldi skipinu frá Spáni og er því farinn að kynnast því. Hann hefur reyndar dvalist langdvölum og fylgst með smíði skipsins úti á Spáni.

Allt flokkað á brettum

Skipið var úti fyrir Vestfjörðum í byrjun vikunnar þegar náðist aftur í Arnar.

„Við lentum strax í brælu og útlendingarnir urðu sjóveikir. Við erum með tvo norska og tvo spænska tæknimenn um borð. Víkingarnir voru á hliðinni en það braut ekki á Spánverjunum. Við erum ekki á miklum afköstum en það samt mesta furða hvað þetta gengur vel. Við erum að kljást við tæknileg atriði aðallega í vinnslunni eins og var viðbúið. Það eru helst einhverjir hnökrar í kringum tölvustillingar í sambandi við frystana en skipið og veiðarfærin virka mjög fínt.  Ég ætla að prófa að kasta tveimur trollum á eftir til að vera viss um að allt í kringum spilbúnaðinn virki. Þá get ég kannski skilað Spánverjunum í land,” sagði Arnar þegar rætt var við hann í byrjun vikunnar.

  • Nýr Baldvin Njálsson GK við komuna heim til Íslands. Skipið er einstaklega fallegt. Mynd/Elvar Jósefsson

„Skipið er mjög tæknilega útbúið og það tekur vissan tíma að læra á það. Vinnan er sú sama í fiskinum en tæknin léttir samt mikið vinnuna. Þetta er svo sem ekki fyrsta skipið með þessum búnaði frá Optimar og þennan frystihluta þess er til dæmis að finna líka í Sólberginu. Við vonum að við þurfum ekki að kljást við mikið bras. Búnaðurinn er mjög tæknilegur en í raun ekki mjög flókinn. Það er mikið af nemum, skynjurum og tölvubúnaði. Mesta breytingin fyrir mannskapinn er að losna við allar lyftingar í lest. Það þarf hvorki að lyfta kössum né pönnum og allur frágangur á afurðunum verður mikið betri. Lestarvinnan verður ekki lík því sem áður var og varan er tilbúin á brettum, afurðaflokkuð og plöstuð og tilbúin í gám. Þetta sparar mikinn tíma við löndun en um leið mikið af peningum. Það hefur kostað 35-40 milljónir króna á ári að landa og flokka uppi á bryggju. Það þarf ekki nema 3-4 karla núna við löndun meðan þeir voru kannski 10-12 áður. Afurðin er líka allt önnur. Þetta eru ekki lengur skakkir og skældir kassar sem hefur verið hent fram og til baka ofan í lest. Áður var grófflokkað í fjóra flokka en nú getum við flokkað í 8-10 stærðarflokka,” segir Arnar.

Lætur vel í sjó

Þeir hrepptu vond veður á heimleiðinni fyrstu þrjá sólarhringana en Arnar segir skipið hafa látið einstaklega vel í sjó. Skipið er með um 4.000 hestafla aðalvél frá Wartsila og skrúfan er 5 metrar í þvermál. Arnar segir eyðsluna á heimleiðinni ekki alveg liggja fyrir en sagt hefur verið að nýr Baldvín Njálsson verði í hópi sparneytnustu skipa í íslenska fiskiskipaflotanum.

  • Arnar Óskarsson, skipstjóri. Aðsend mynd

26 manns eru í áhöfn skipsins hverju sinni og eru því alls 54 manna áhöfn í kringum skipið. Skipstjóri á móti Arnari er Þorsteinn Eyjólfsson. Arnar segir aðbúnað fyrir áhöfnin alveg til fyrirmyndar. Í skipinu eru tvær stórar setustofur, líkamsrækt og gufubað og vistarverurnar eru allar aftast í skipinu.

„Frystitogarar eru farnir að fiska yfir 10 þúsund tonn á ári og það er mikil vinna að afgreiða svo mikinn afla jafnvel með nýjustu tækni.”

Öflugara og eyðslugrennra skip

Bergþór Baldvinsson, framkvæmdastjóri Nesfisk, segir það góða tilfinningu að tekið á móti skipinu enda er skipið eitt af glæsilegri skipum í íslenska fiskiskipaflotanum og eitt hið tæknilegasta.

Skipið er hannað af Skipasýn og það var smíðað í Argos skipasmíðastöðinni í Vigo á Spáni eins og eldra skip með sama nafni sem var smíðað árið 1991 fyrir norska útgerð. Skipið hefur nú verið selt rússneskri útgerð.

Bergþór segir að nýja skipið sé öflugara á allan hátt og með stórri skrúfu sem geri það hagkvæmara í rekstri. Í því er vöruhótel sem skilar afurðunum pökkuðum á bretti en ekki verður bitaskurður eða mjölvinnsla um borð, altént ekki fyrst um sinn.

Nýr Baldvin Njálsson er 66 metrar á lengd og um 15 metrar á breidd. Það er með 3.000 kW Wärtsilä aðalvél og skrúfan er 5 metrar í þvermál. Skipið er sagt eitt hið sparneytnasta í þessum flokki skipa.

Vinnslubúnaðinum svipar til þess sem er í Sólbergi ÓF. Búnaðurinn er framleiddur af Optimar í Noregi, t.d. búnaður til pökkunar, frystingar auk lestarbúnaðar. Klaki ehf. í Kópavogi framleiðir öll færibönd og stóran hluta búnaðar á millidekkinu, þ.e. frá móttöku að flokkun, að frátöldum hausurum, roðdráttarvélum og flökunarvél.

Fryst verða flök um borð sem og hausar. Í skipinu verður vöruhótel með þjarka sem tegundar- og stærðarflokkar og beinir afurðum að sjálfvirkum pökkunarbúnaði. Brettastaflari staflar pökkuðum afurðum tilbúnum til löndunar og útflutnings.

Minni olíunotkun

Sævar Birgisson, framkvæmdastjóri Skipasýnar, segir meginmuninn vera vöruhótel í tveimur lestum þar sem flokkaður fiskur fer frystur á bretti. Stóra stökkið sé brettavæðingin. Skipulagið kallast vöruhótel og felst í þjarka sem tegundar- og stærðarflokkar og beinir afurðum að sjálfvirkum pökkunarbúnaði. Brettastaflari staflar pökkuðum afurðum á brettin. Við löndun eru þau tilbúin og tegundarflokkuð til útflutnings. Þetta dregur úr öllu umstangi við löndum þar sem tegundarflokkun fór áður fram á bryggjunni. Fyrirkomulagið dregur því verulega úr kostnaði við landanir.

Það eru í raun tvær brettavæddar lestar í skipinu því milligólf er eftir lestinni endilangri. Þetta gefur færi á eins eða tveggja bretta hæð í hvorri lest í stað allt að fjögurra bretta hæð í einni lest. Þetta er ákjósanlegt upp á stöflun í vondum veðrum og gagnvart notkun lyftara í lestunum.

Togkraftur skipsins er 67 tonn og vinnsludekkið verður á 580 fermetrum. Rúmmál lestarinnar er 1.720 rúmmetrar. Olíunotkun næst verulega niður með nýrri hönnun skipskrokks og framdriftarkerfi, þar með talinni stórri skrúfu. Svipaðar hönnunarlausnir Skipasýnar á 50 metra löngum togurum hafa skilað 35-40% minni olíunotkun fyrir sama aflamagn en á fyrri gerðum skipa svipaðrar stærðar.

Nesfiskur ehf. var stofnað í maí 1986 af Baldvini Njálssyni og fjölskyldu hans, sem rak áður fiskverkun Baldvins Njálssonar. Í Garðinum rekur Nesfiskur frystingu, ferskfiskvinnslu, saltfiskverkun, skreiðar- og hausaþurrkun. Þá er Nesfiskur með frystingu og ferskfiskvinnslu í Sandgerði.