Vélfag sýndi byltingarkennda gerð af fiskvinnsluvél á Sjávarútvegi 2022 (Iceland Fishing Expo) í síðustu viku. Tækið sem nefnist Uno er í raun fimm vélar í einni. Það beinhreinsar fisk, hausar, roðflettir, flakar, sker í bita og er með innbyggt gæðaeftirlit. Tækið hefur verið í þróun í tvö ár. Bluewild útgerðin norska hefur keypt tvö tæki þessarar gerðar í hinn byltingarkennda Ecofive togara sem nú er í smíðum.

Uno leysir af hólmi fimm vélar og gjörbyltir hvítfiskvinnslunni eins og hún þekkist í dag. Fisk er raðað inn í vélina sem sér um afganginn. Hún hausar, flakar, beinhreinsar, roðdregur og gallagreinir flakið þegar það er á leið út úr vélinni. Vélin metur hvort þurfi að snyrta flakið eitthvað frekar þegar það kemur út úr henni. Það fer því annað hvort beint í pökkun framhjá snyrtilínunni eða til áframhaldandi vinnslu.

Uno vinnur líka afurðir ofan og neðan við hrygg við dálkbeinið og þær ásamt beingarðinum sem er skorinn úr með vatni eru kjörhráefni í marning úr afurðunum sem væri annars hent eða færu í lægri gæðaflokk. Segja má að fullvinnsla Uno vélarinnar sé algjör því hún sker líka gellur og kinnar úr hausnum.

„Við erum að reyna nýta eins mikið og við getum úr fiskinum í þessari vél og án þess að mannshöndin komi þar nærri,“ segir Andri Fannar Gíslason sjávarútvegsfræðingur sem hefur verið í teymi Vélfags sem þróaði Uno vélina.

Aðlagar sig hverri tegund

Uno vélin vinnur allar helstu bolfisktegundir sem veiddar eru á Íslandsmiðum, þ.e. þorsk, ýsu, ufsa, karfa og alaskaufsa einnig. Með rofa á skjá vélarinnar er hægt að velja á milli tegunda og vélin aðlagar sig sjálfvirkt að hverri tegund fyrir sig. Hún greinir einnig stærð fiska og aðlagar vinnsluna eftir henni.

Kostir Uno vélarinnar eru í fyrsta lagi aukin nýting en líka það að vélin er mannaflssparandi. Hún hentar jafnt til uppsetningar í skipum og minni landvinnslur gætu séð sér hag í svo fyrirferðarlítilli en afkastamikilli vél.

„Flökunarvélarnar sem við höfum framleitt geta flakað allt frá 500 gramma fiski og upp í 8-10 kílógramma fisk. Þessi þáttur flökunarvélarinnar er innbyggður í nýju Uno vélina. Við byggjum því áfram á því góða starfi sem við höfum unnið í þróun á flökunarbúnaði,“ segir Andri Fannar.

Bylting í bolfiskvinnslu

Óhætt er að tala um að Uno vélin sé bylting í bolfiskvinnslu. Það sýndi sig líka í miklum viðbrögðum gesta á sjávarútvegssýningunni í Laugardalshöll í síðustu viku þegar vélin var frumsýnd. Andri segir að áskorunin hafi verið sú að ein vél gæti unnið fisk jafnvel og margar vélar gera núna. Þess vegna þarf vélin að skila meiri nýtingu og jafnmiklum eða meiri hraða en núverandi vinnslulínur. Miðað er við að afkastageta nýju vélarinnar verði á pari við nýjustu gerðir flökunarvéla, þ.e.a.s. að hámarki 40-45 fiskar á mínútu.

„Fyrstu prófanir gefa til kynna að nýtingin sé töluvert meiri. Það liggur í því að vélin sker beingarðinn úr heilum fiski en ekki flökum. Röðunin á beinunum hefur því ekki aflagast í flökuninni og roðdrættinum og vélin nær að skera mun þynnri línu sem leiðir til 2-3% betri nýtingu.“

Einkaleyfi á heimsvísu

Vatnskurðurinn og myndavélaeftirlitið í vélinni byggir á tæknilausnum Vélfags. Vélin kemur í einni stærð og einum pakka. Nú er unnið að öflun einkaleyfis fyrir vélina á heimsvísu sem lýtur að því hvernig fiskurinn er skorinn í vélinni, þ.e.a.s. skurður á heilum fisk en ekki flökum. Ólöf Lárusdóttir, sem er eigandi Vélfags ásamt eiginmanni sínum, Bjarma Sigurgarðarssyni og rússneska sjávarútvegsfyrirtækinu Norebo, segir að markaðssetning á Uno vélinni hefjist á fjórða ársfjórðungi 2023. Verð á vélinni verði gefið út á næsta ári. Hún segir að engu síður verði Uno vélin hagkvæmari lausn en kaup á öllum hefðbundnum fiskvinnsluvélum sem innbyggðar eru í þessa einu vél auk þess sem nýtingin er meiri og sjálfvirknin einnig.

Engu að síður hefur norska útgerðarfélagið Bluewild þegar fest kaup á tveimur Uno vélum sem verða settar um borð í Ecofive, hátæknivæddan verksmiðjutogara sem hlaut nýsköpunarverðlaunin á Norfish sýningunni í Þrándheimi og er nú í smíðum hjá Ulstein í Noregi. Yfirlýst markmið Bluewild er að nýta sem best auðlind hafsins og skipa sér í flokk umhverfisvænstu útgerða.