„Nú á greinilega að rústa byggð í Grímsey með þessari einþykkni, myndi ég vilja nefna það. Það að gefa ekki áframhaldandi undanþágu frá vinnslu á staðnum,“ sagði Jón Hjaltason, bæjarfulltrúi Ó-listans, á fundi bæjarstjórnar Akureyrar í gær þegar rætt var um þá ákvörðun Byggðastofnunar að veita Grímseyingum ekki áframhaldandi undanþágu frá vinnsluskyldu á fiski sem veiddur er með sértækum byggðakvóta.

Kvaðst Jón ætla að segja hlutina eins og þeir raunverulega séu.

„Það er mikil óánægja innan fiskveiðigeirans vegna þess hvernig Grímseyingar hafa farið með kvótann, þeir hafa selt hann frá sér og síðan vinna þeir á byggðakvótanum. Þetta eru einstaklingar sem hafa framkvæmt þetta, hafa selt frá sér kvótanum og vinna síðan áfram á þessum nótum. En engu að síður, þetta hvernig einstakir menn fara að, þeir eru innan allra laga og reglna, þeir fara eftir kerfinu sem við höfum búið til. Þannig að ég velti fyrir mér hvort þessi óánægja hafi smitast inn í Byggðastofnun. Að þeir séu að gjalda þess eyjaskeggjar að einstakir útgerðarmenn hafa selt frá sér kvótann og vinna síðan á byggðakvóta,“ sagði Jón. Þetta væri ósanngjarnt.

Andúð, svo ekki sé dýpra í árinni tekið

Sagði Jón undanþáguna einfaldlega vera grundvallaratriði fyrir áframhaldandi búsetu í Grímsey.

„Ef þetta gengur ekki eftir með þessu hætti að þá leggst hún í eyði. Og ég vona að þessi, já köllum það bara andúð, þessi andúð sem ég hef orðið var við í garð Grímseyinga vegna þessa hátternis einstakra manna, að selja kvótann og halda síðan áfram á byggðakvótanum, ég vona að sú andúð, svo ég taki ekki dýpra í árinni, hafi ekki smitast inn í ráðuneytið líka,“ sagði Jón, Hugsa ætti um hag eyjaskeggja. „Dæmum þá og veitum þeim það sem þeir þurfa en horfum fram hjá því hvernig einstakir menn hafa farið með sinn kvóta.“

Mega ekki við því að lagðir séu steinar í götu þeirra

Halla Björk Reynisdóttir, forseti bæjarstjórnar úr L-lista, hafði áður en Jón tók til máls farið yfir stöðuna í Grímsey og kynnt bókun vegnar hennar. Benti Halla á að Grímsey liggi við heimskautsbaug, 41 kílómetra frá norðurströnd landsins.

„Byggð hefur verið í Grímsey frá landnámi og hefur eyjan jafnan talin matarkista vegna hins gjöfula lífríkis sem þar er að finna. Undanfarna áratugi var fjöldi íbúa lengst af 90 til 100 manns en eyjarskeggjum hefur fækkað á allra síðustu árum en í upphafi ársins voru skráðir íbúar í Grímsey 57 talsins. Það er því ljóst að byggðarlagið er viðkvæmt og má ekki við því að steinn sé lagður í götu þess,“ sagði Halla.

Telji ekki hægt að mismuna landsmönnum

Kvað forseti bæjarstjórnar sjávarútveg vera grundvöll að búsetu og aðal atvinnuvegur Grímseyinga og svo hafi verið frá upphafi byggðar í eyjunni.

„Það hefur legið fyrir um nokkurt skeið að undanþága sem Grímseyingar hafa notið gagnvart vinnsluskyldu á sértækum byggðakvóta yrði ekki endurnýjuð. Að mati Byggðastofnunar er ekki lengur hægt að veita undanþáguna. Stofnunin telur að það færi betur á því að allir aðilar sætu við sama borð og telja ekki hægt að mismuna landsmönnum með þeim hætti sem verið hefur og Grímseyingar þurfi þannig að lúta sömu lögmálum og aðrir þegar kemur að úthlutun byggðakvóta. Byggðastofnun telur sig sem sagt ekki hafa heimildir til að víkja frá settum reglum og bendir á ráðuneytið. Það liggur fyrir að nær ómögulegt er að koma upp vinnslu í eyjunni, í það minnsta ekki vinnslu sem gæti staðið undir sér,“ sagði Halla í ræðu sinni.

Ótraustar ferjusiglingar

Benti Halla síðan á að treystu þurfi á ferju sem sigli í Grímsey þrisvar í viku yfir vetrartímann. „Og við munum öll hvernig staðan var síðasta vetur en þá var hún frá í þrjá mánuði. Þá er ljóst að ef vinnsla á að ganga þarf að flytja mikið magn af fiski út í eyju. Þetta getur því ekki borgað sig og getur alls ekki talist umhverfisvænt,“ sagði hún.

Er nokkur vandi að klæðaskerasníða lausn fyrir Grímseyinga?

Þá sagði Halla að spyrja mætti hver stefnan sé í byggðamálum. „Viljum við, og er það einhvers virði fyrir okkur sem þjóð að byggð haldist vítt og breitt um landið eða öllum landshlutum og öllum eyjum? Ef svarið er já er það nokkur vandi fyrir okkur að skoða sérstöðu eyjarinnar og klæðskerasníða lausnir fyrir íbúa hennar þannig að búa þar sem þau hafa alið manninn í marga áratugi og með mikilli seiglu barist í gegn um hvern skaflinn á fætur öðrum?“

Sagði Halla það vera hennar mat að verðmæti sé fólgin í því að styðja við byggð í Grímsey. „Og yrði mikill skaði ef fótunum yrði kippt undan þeim með þeim hætti sem nú er verið að leggja upp með,“ sagði hún. Mikil vinna hefði farið fram á síðustu árum í gegn um verkefnið brothættar byggðir til að móta framtíðarsýn og finna leiðir til þess að efla byggðina og snúa íbúaþróuninni við.

Útgerðarmenn fari og byggðin leggist af

„Árangur hefur náðst sem kemur fram í því að ekki hefur verið um frekari fólksfækkun að ræða. Og þjónusta hefur eflst og eru nú reknir tveir veitingastaðir og þrjú gistiheimili svo eitthvað sé nefnt og ferðamannastraumurinn alltaf að aukast. Verði þetta niðurstaðan hefur komið fram að útgerðarmenn sjá sér ekki annan kost færan en að flytja sig um set og telja sumir að byggð muni þá hreinlega leggjast af,“ sagði Halla og lagði fram bókun eins og áður segir sem bæjarstjórnin öll samþykkti.

Jón benti einnig á að samkvæmt reglugerð um úthlutun byggðakvóta geti ráðherra, óháð jafnræðisreglu og öðru veitt umrædda undanþágu áfram. „Þannig að ég styð eindregið okkar bókun hér og hvet eindregið til þess að við sækjum mjög hart á ráðherrann að veita þessa undanþágu þannig að Grímseyingum verði ekki gert að skyldu að vinna þann afla úti í ey sem þeir afla,“ sagði Jón.

Í umræðunni skýrði Halla frá því að hún ásamt Ásthildi Sturludóttur bæjarstjóra átt „mjög fínan fund“ með Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra. Þar hafi ýmsar lausnir verið ræddar.

„Það var talað um að setja af stað spretthóp sem myndi koma með einhverja tillögu og við auðvitað bindum vonir við að það verði jákvæð niðurstaða úr þeirri vinnu,“ sagði forseti bæjarstjórnar í gær. Síðan bæjarstjórnarfundurinn var haldin hefur Bjarkey hins vegar sagt sig frá embætti matvælaráðherra. Búist er við því að það liggi fyrir síðar í dag hver tekur ráðuneytið að sér.

Skorað á ríkisvaldið

Bókun bæjarstjórnarinnar sem Fiskifréttir sögðu frá fyrr í dag er eftirfarandi:

„Grímsey er einstök eyja við heimskautsbaug þar sem hefur verið byggð frá landnámi og mikilvægt að stjórnvöld geri allt sem í þeirra valdi stendur til þess að styðja við byggðarlagið.

Eins og staðan er nú er nær ómögulegt að halda uppi landvinnslu í eyjunni vegna landfræðilegrar stöðu. Á síðasta ári var ferjan í slipp í 12 vikur. Augljóst er að erfitt er því að treysta á ferjusiglingar með hráefni til og frá eyjunni.

Bæjarstjórn Akureyrarbæjar skorar því á ríkisvaldið að framlengja undanþágu á vinnsluskyldu á sértækum byggðakvóta þannig að byggð megi haldast áfram í Grímsey. i vinnu.“